Hjördís Óladóttir, grunnskólakennari við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit, er tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna árið 2025 fyrir skapandi og fjölbreytta kennsluhætti og námsumhverfi í byrjendakennslu.
Sjá einnig: Leikskólinn Iðavöllur á Akureyri tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna
Hjördís er tilnefnd í flokknum Framúrskarandi kennari. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands 2002 og námi í starfstengdri leiðsögn og kennsluráðgjöf frá Háskóla Íslands 2022. Hún hefur kennt við grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri, en kennir nú við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit þar sem hún hefur kennt undanfarin fimm ár og einbeitt sér að kennslu á yngsta stigi eins og hún hefur löngum gert.
Kennsla Hjördísar þykir hafa öll einkenni gæðakennslu. Hún skipuleggur fjölbreytt viðfangsefni og leggur áherslu á skapandi úrvinnslu og tekur ætíð mið af ólíkum þörfum, styrkleikum og getu nemenda sinna. Hún er óhrædd við að leita nýrra leiða og er fyrirmynd annarra kennara í þeim efnum. Hjördís leggur áherslu á að mynda góðan bekkjaranda í nemendahópum sínum, er ákveðin en hlý og fylgir ákvörðunum sínum vel eftir. Þá er hún sérlega lausnamiðuð og hefur náð einstaklega góðum árangri í jákvæðri bekkjarstjórnun. Skólastofur hennar hafa alltaf þótt vera einstaklega frjótt, fallegt og skapandi námsumhverfi.
Úr umsögn sem fylgdi tillögu um tilnefningu:
Hjördís er fagmanneskja fram í fingurgóma og það sem einkennir hennar störf er að hún setur nemendur ávallt í fyrsta sæti. Hún kynnist hverjum nemanda, fjölskyldum nemendanna og svo finnur hún lykilinn að árangri fyrir hvern og einn. Hjördís er fordómalaus og kröfuhörð bæði við sjálfa sig, nemendur og foreldra – allt í þágu velferðar nemenda með hagsmuni þeirra að leiðarljósi.
Hjördís er mjög hvetjandi við nemendur og hefur þann eiginleika að toga nemendur sífellt lengra, oftast lengra en þeir áttuðu sig á að þeir kæmust. Hún hefur mikinn metnað fyrir starfi sínu og fyrir nemendur sína enda bera verkefni nemenda og framkoma þess merki. Hjördís lítur á áskoranir sem tækifæri og ég held að hún viti ekki hvað uppgjöf er! Að auki má nefna að Hjördís er góð fyrirmynd, bæði fyrir nemendur sína, samstarfsfólk og einnig hefur hún lagt metnað sinn í að sinna kennaranemum af alúð.
Hjördís hefur verið fengin til þess að flytja erindi á fjölmörgum ráðstefnum og námskeiðum fyrir grunnskólakennara um ýmsa þætti í kennslu sinni sem hafa fengið afar góðar viðtökur. Þá hafa gögn um kennslu hennar verið notuð í kennaranámi.


COMMENTS