KIA

Hjúkrunarfræði aldrei verið vinsælli í Háskólanum á Akureyri – Rúmlega 300 umsóknirHáskólinn á Akureyri. Mynd: Auðunn Níelsson.

Hjúkrunarfræði aldrei verið vinsælli í Háskólanum á Akureyri – Rúmlega 300 umsóknir

Eins og Kaffið greindi frá á föstudag hafa umsóknir við Háskólann á Akureyri aldrei verið fleiri en í ár og slógu öll fyrri met. Endanlega tala umsókna var 2083 en í byrjun júlí var búið að samþykkja 1531 umsókn. 552 umsækjendum var synjað eða þeir ekki sent inn fullnægjandi gögn með umsóknum sínum. Það eru því einungis 74% umsækjenda sem fá boð um skólapláss.

Hjúkrunarfræði aldrei vinsælli

Í ljósi baráttu ljósmæðra og þeirri umræðu sem hefur verið hávær í samfélaginu í sumar í kjölfarið hafði Kaffið samband við Eyjólf Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, til að spyrjast fyrir um umsóknir í hjúkrunarfræðinám. Háskólinn á Akureyri er eini háskólinn á Norðurlandi sem býður upp á nám í hjúkrunarfræði sem hefur reynst nokkuð vinsælt undanfarin ár.
Í ljós kom að umsóknir um nám í hjúkrunarfræði við HA voru rúmlega 300 talsins í vor og hafa aldrei verið fleiri.
„Sú barátta sem á sér stað í dag virðist ekki hafa bein áhrif á nám í hjúkrunarfræði því í ár fengum við fleiri umsóknir en nokkurn tíman fyrr, eða rúmlega 300.  Námið er mjög gott og hefur sýnt sig að nýtist fólki vel til margvíslegra starfa – og erum við stolt og ánægð yfir því að nemendum líki vel við nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri,“ segir Eyjólfur Guðmundsson.

Nauðsynlegt að breyta starfsaðstæðum og kjörum hjúkrunarfræðinga

 Eyjólfur nefnir þó að brýnt sé að breyta starfsaðstæðum og kjörum hjúkrunarfræðinga. Þá sé baráttan alls ekki unnin að breyta eingöngu launum heldur þurfi að horfa á heildarmyndina og endurmeta hversu mikið álag fylgir starfi á heilbrigðisstofnunum svo að hjúkrunarfræðingar vilji koma til starfa þar.
„Það breytir ekki þeirri staðreynd að til þess að tryggja að hjúkrunarfræðingar komi til starfa við heilbrigðisstofnanir þá þarf greinilega að breyta starfsaðstæðum og kjörum þeirra – en þar held ég að þurfi að horfa til fleiri þátta en launa eingöngu – og á ég þá við horfa þurfi til vinnutíma, álags, hvaða tækifæri fólk hafa til endurmenntunar svo það geti haldið áfram að bæta færni sína og hæfni í starfi, svo einhver dæmi séu tekin.  Það er vandasamt verk fyrir stjórnvöld og viðsemjendur þeirra að komast að ásætanlegri lausn sem rúmast innan þess fjármagnsramma sem stjórnvöld setja sér á hverjum tíma,“ segir Eyjólfur.

Sambíó

UMMÆLI