Hljómsveitin Swizz sendir frá sér nýja plötu

Hljómsveitin Swizz sendir frá sér nýja plötu

Næstkomandi laugardag kemur út fjögurra laga plata frá hljómsveitinni Swizz. Platan verður aðgengileg á Spotify.

Hljómsveitin Swizz hefur verið starfandi um árabil og leikið víða um land á dansleikjum, öldurhúsum og allskyns uppákomum. Sveitin hefur hingað til eingöngu leikið annarra manna tónsmíðar af öllum gerðum, þó svo meðlimum þyki einna mest gaman að spila klassískt rokk í ýmsum þyngdarflokkum.

Nú þótti kominn tími til að senda frá sér frumsamið efni og er fjögurra laga EP-plata, Hispur, væntanleg bæði á geisladisk og á helstu streymisveitum.

Lögin fjögur semur forsprakki sveitarinnar, Akureyringurinn Ingvar Valgeirsson, þar af eitt í samstarfi við frænda sinn Hauk Pálmason, trymbil og tónlistarkennara á Akureyri. 

Auk Ingvars, sem syngur og leikur á gítar, skipa sveitina þeir Kristinn Gallagher bassaleikari (sem hefur m.a. leikið m. Dalton og Spútnik) og Helgi Víkingsson (sem lék lengi með Eyjasveitinni Dans á rósum). 

„Meðvituð ákvörðun var tekin um að velja fjögur gerólík lög á plötuna – eitt popplag, einn blús, eitt grafalvarlegt diskólag og svo einn gamaldags rokkópus sem rekur lestina,“ segir Ingvar í spjalli við Kaffið.

Platan var tekin upp í Stúdíó Bambus í Hafnarfirði, og sá Stefán „Íkorni“ Gunnlaugsson um upptökustjórn og hljómborðsleik, en hann var einmitt hljómborðsleikari Swizz fyrstu mánuðina sem sveitin starfaði.

UMMÆLI