Prenthaus

Hljómsveitin Ylur gefur út hugljúfa ábreiðu

Hljómsveitin Ylur gefur út hugljúfa ábreiðu

5. júlí kom út ábreiða af laginu Lífsbókin (lag: Bergþóra Árnadóttir, texti: Laufey Jakobsdóttir) sem án efa er ein af perlum íslenskrar tónlistar. Flytjandi ábreiðurnar er hljómsveitin Ylur. Ylur, sem er dúó, hefur starfað frá árinu 2018, þau komu fyrst fram þegar Hafdís Þorbjörnsdóttir og Björn H. Reynisson spiluðu í opnunarteiti Krabbameinsfélags Akureyrar. Bæði höfðu þau tengingu við Krabbameinsfélagið, þar sem Regína eiginkona Björns var að vinna sem sálfræðingur hjá félaginu og Helga Hafsteinsdóttir móðir Hafdísar var að berjast við krabbamein á þessum tíma. Þarna byrjaði samstarfið en nafnið kom síðar, dúóið tók að sér flutning á viðburðum og að endingu fóru þau að starfa undir nafninu Ylur. 

Í apríl 2019 lést Helga móðir Hafdísar eftir baráttu við krabbamein. Í október sama ár var Hafdís beðin um að ræða sína sögu í tilefni af Bleikum október í viðtali hjá N4, í lok viðtalsins tók Ylur lagið Lífsbókin í einlægum flutningi en þetta var eitt af uppáhalds lögunum hennar Helgu og eitt af þeim lögum sem Hafdís söng við útför hennar. Upptaka af flutningnum vakti talsverða athygli og fékk góðar viðtökur og því var ákveðið að fara í að hljóðrita lagið. Upptökur hófust í desember 2021 og nú 5. júlí 2022 hefði Helga orðið 55 ára og kemur lagið út í tilefni þess, með uppáhalds söngkonunni hennar, dótturinni Hafdísi.

Helga Hafsteinsdóttir í miðju myndar með móður sinni, systrum, dætrum, og barnabarni. Mynd: Agnes Skúla.

Lagið er gefið út af MBS skífum sem er samstarfsverkefni nokkra tónlistarmanna á Akureyri en nokkrir þeirra tóku að sér hljóðritun og hljóðfæraleik ásamt Yl.

Upptökum stjórnuðu: Ingi Jóhann Friðjónsson og Þorsteinn Kári Guðmundsson.

Söngur: Hafdís Þorbjörnsdóttir (Ylur), gítar: Björn H. Reynisson (Ylur), bassi: Ingi Jóhann Friðjónsson, slagverk: Jón Haukur Unnarsson, hljóðgervill: Þorsteinn Kári Guðmundsson sem einnig hljóðblandaði og hljóðjafnaði. 

Sambíó

UMMÆLI