H&M opnaði á Glerártorgi í morgun: „Í dag varð Akureyri pínu stærri“

H&M opnaði á Glerártorgi í morgun: „Í dag varð Akureyri pínu stærri“

Í morgun klukkan 10 opnaði fyrsta H&M verslunin á Akureyri. Röð hafði myndast fyrir utan verslunina á Glerártorgi í morgun og var gestum hleypt inn á slaginu 10.

Röðin varð löng í morgun en rekstraraðilar leggja mikið upp úr því að virða sóttvarnarreglur. Einungis 70 manns fá að fara inn í verslunina í einu.

Mikið stuð var við opnunina og starfsmenn dönsuðu þegar fyrstu viðskipavinum var hleypt inn.

Davíð Rúnar Gunnarsson, markaðsstjóri Glerártorgs, segir að allt hafi gengið svakalega vel fyrir sig.

„Það er flott að sjá hvað fólk er mikið að sýna tillitssemi og virða reglur almannavarna. Verslunin er gífurlega flott, svakalega erlendis,“ segir Davíð í spjalli við Kaffið.

„Fyrir ekki löngu var það draumur fólks að fá H&M til Íslands en í dag 3. september lét H&M ekki duga að hafa opnað á Íslandi heldur bætti um betur og opnaði á Akureyri. Það sýnir vel hversu öflug Akureyri er sem þjónustumiðstöð fyrir landsbyggðina og Glerártorg sem verslunarmiðstöð. Í dag varð Akureyri pínu stærri. Til hamingju allir og verið velkomin á Glerártorg,“ segir í tilkynningu frá Glerártorgi.

Mynd: Daníel Starrason

UMMÆLI