Hringvegur lokaður um Mývatnsöræfi og BiskupshálsMynd af vefsíðu Vegagerðarinnar

Hringvegur lokaður um Mývatnsöræfi og Biskupsháls

Þjóðvegi eitt hefur verið lokað frá Mývatnssveit og að afleggjaranum inn á Vopnafjarðarheiði. Veginum var lokað seint á sjötta tímanum í dag. Óvíst er hvenær vegurinn opnar á ný en í samtali við fréttaritara segir starfsmaður Vegagerðarinnar það ekki ólíklegt að hann haldist lokaður þangað til á morgun.

Einnig segir starfsmaður Vegagerðarinnar að mikill snjór og hálka sé á veginum og Björgunarsveit hafi verið kölluð út til að aðstoða fólk sem hafi fest bíla sína og/eða runnið til á veginum. Mikil flækja myndaðist á veginum enda margir vegfarendur ekki búnir undir þær vetraraðstæður sem þar hafa skapast og flestir enn á sumardekkjum.

Snjóað hefur á stóru svæði á Norðurausturlandi frá því um hádegisbil í dag og lítur út fyrir að úrkoma hætti ekki fyrr en á morgun. Jörð er víða hvít á Norðurlandi, til að mynda í Mývatnssveit og Reykjadal.

Veðrið gæti ollið samgöngutruflunm víðar á Norðurlandi en hálkublettir eru til að mynda í Mývatnssveit og á Öxnadals- og Fljótsheiðum. Snjóþekja er á Mývatnsheiði og Vopnafjarðarheiði.

Þessi mynd er tekin á Skútustöðum í Mývatnssveit um klukkan 12:30 í dag. Ljósmynd: Kaffið/RFJ

UMMÆLI