Akureyri-Færeyjar

Hvað var tígurinn í Dunkirk að gera á Akureyri?

Hvað var tígurinn í Dunkirk að gera á Akureyri?

Árið 1940 kom breskur herforingi í eftirlitsferð til Íslands. John Standish Surtees Prendergast Verekerv gekk jafnan undir nafninu Gort lávarður (Lord Gort), stundum kallaður „Tiger“ Gort af óbreyttum hermönnum (t.v. á mynd). Hann varð æðsti maður breska heraflans í Evrópu í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar eftir að Neville Chamberlain forsætisráðherra Breta skipaði hann til starfans.

Gort fór ásamt herliði sínu til Frakklands í september árið 1939 til stuðnings franska hernum ef til innrásar Þjóðverja kæmi sem svo varð raunin í maí 1940. Bretarnir áttu við ofurefli að etja í Frakklandi. Að ráði Gort dró breska herliðið sig til baka, til Dunkirk á norðurströnd Frakklands þaðan sem breskir hermenn voru fluttir á fjölmörgum smábátum og skipum til Englands.

Æ síðan hefur Gort lávarður ýmist verið gagnrýndur eða hylltur fyrir ákvörðun sína um að hörfa og koma mönnum sínum heim. Að öðrum kosti hefðu um 340 þúsund breskir hermenn líkast til verið stráfelldir af vígreifum nasistum.

Tæpum fimm mánuðum eftir atburðarásina í Dunkirk steig Gort á land í Reykjavík. Hann dvaldist hér á landi um tveggja vikna skeið í lok október og hafði aðsetur á Hótel Borg. Þó er vitað að hann ferðaðist út fyrir borgarmörkin á meðan dvöl hans stóð. Fréttatilkynningar í íslenskum blöðum voru á einn veg – ástæður heimsóknar hans til Íslands voru ókunnar.

Skjalfest er að Gort kom til Akureyrar mánudaginn 21. október. Í dagblaðinu Íslendingi sem kom út 25. október segir; Gort lávarður sem var yfirhershöfðingi Breta í Frakklandi s.l. vor, er kominn hingað til lands. Til Akureyrar kom hann á mánudaginn var, og hafði brezka setuliðið ýmsan viðbúnað til að gera móttökur hans sem virðulegastar.

Grenndargralið komst á snoðir um heimild í netheimum sem sýnir að Gort heimsótti herbúðir Breta í Hörgárdal. Í herdagók Hallamshire-herdeildarinnar bresku sem staðsett var á Djúpárbakka segir;  General The Viscount Gort V.C. Inspector General of Training visits area (October 1940). Gort lauk Íslandsferð sinni þegar hann kom heim til Englands í byrjun nóvember.

Meira um ferðalag Gort lávarðar – stríðshetjunnar frá Dunkirk – til Akureyrar á www.grenndargral.is.

UMMÆLI