Hvaðan fær barnið þitt kynfræðslu?

Hvaðan fær barnið þitt kynfræðslu?

Áhugi á kynlífi á unglingsaldri er fullkomlega eðlilegur hlutur. Áður en að fyrstu skrefin eru stigin með öðrum aðila er eðlilegt að leita sér upplýsinga um kynlíf, hvernig það lítur út, hvernig á að haga sér í kynlífi og hvers má vænta. En hvaðan fá unglingarnir okkar þær upplýsingar? Þeir leita á sama stað og við leitum öll að upplýsingum sem okkur vantar, á netinu. Þar finna þeir alls konar efni og það er nóg af efni því fyrir hverja heimasíðu um annað efni en klámefni eru fimm klámsíður. Rannsóknir sýna að meðalaldur barna þegar þau sjá fyrst klám er 11 ára. Sömuleiðis horfa strákar fyrr á klám en stelpur og í meira mæli. Staðreyndin er sú að íslenskir drengir eiga Norðurlandamet í klámáhorfi.

Efnið er þarna úti og unglingarnir okkar eru að horfa á það. Besta leiðin til að sporna gegn þeim áhrifum sem klámið hefur á kynlíf unglinga er að ræða það við þau opinskátt, fyrr en seinna og oftar en sjaldnar. Unglingar sem fá fræðslu frá foreldrum sínum um kynlíf leiðir til þess að þeir stunda frekar kynlíf á eigin forsendum þegar þau eru tilbúin til þess og hafa löngun til þess. Það stuðlar að því að þeir eru betur í stakk búnir til að setja mörk í kynlífi og stunda öruggt og heilbrigt kynlíf. 

Sú hefð hefur myndast að Sigga Dögg, kynfræðingur, sækir okkur Akureyringa heim á hverju ári og ræðir við nemendur í 8. bekk í öllum skólum sveitarfélagsins. Auk þess heldur hún fyrirlestur fyrir foreldra þar sem hún fer yfir það sem hún ræðir við unglingana og gefur góð ráð um opinská og góð samskipti unglinga og foreldra um kynlíf, mörk og öryggi í kynlífi. Sigga Dögg ræðir við unglingana um að kynnast sjálfum sér, stunda sjálfsfróun og kunna á eigin líkama áður en að honum er deilt með öðrum. Hún talar fyrir mikilvægi þess að þegar fólk stundar kynlíf þurfi að eiga sér stað samskipti á meðan og að það eigi að spyrja hvort annað hvort allt sé í lagi, hvort það megi halda áfram og hvort það sé gott. Hún talar um öruggt kynlíf og er smokkurinn þar efstur á lista. Foreldrar sjá almennt til þess að barnið þeirra sé rétt útbúið fyrir tómstundir hverju sinni og ætti kynlíf ekki að vera undanskilið því.

Setjum okkar í spor unglingsins. Hann ætlar sér að stunda kynlíf í fyrsta skipti og þarf að kaupa smokk. Hann þarf að fara í búð eða apótek þar sem hann getur rekist á hvern sem er sem sér í hvaða leiðangri hann er. Ef unglingurinn kemst alla leið með smokkapakkann að afgreiðsluborðinu þarf að greiða fyrir herlegheitin og eiga samskipti við afgreiðslufólkið sem er oft jafnaldri og að kaupum loknum er hann jafnvel kvaddur með orðunum “góða skemmtun”. 

Kaupum smokka fyrir unglingana okkar, kaupum nóg af þeim, geymum á aðgengilegum stað og fyllum á áður en birgðirnar klárast. Ræðum við þau um kynlíf, klám og virðingu fyrir okkur sjálfum og öðrum í kynlífi. Virðing fyrir eigin mörkum og annarra er umræðuefni fyrir Samfesting, viðburð sem 4500 unglingar alls staðar af landinu taka þátt í. Nánari upplýsingar eru á sjukast.is

Forvarna- og félagsmálaráðgjafar Akureyrar

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó