Hvanndalsbræður, Fíflið og afmæli eldri borgara

Hvanndalsbræður, Fíflið og afmæli eldri borgara

Það verður í nógu að snúast í Samkomuhúsinu og Menningarhúsinu Hofi um helgina. Kveðjusýning Karls Ágústs Úlfssonar, Fíflið, er sýnd í Samkomuhúsinu á föstudags- og laugardagskvöldið. Karl Ágúst Úlfsson hefur brugðið sér í allra kvikinda líki í íslensku menningarlífi og meðal annars gegnt hlutverki fíflsins við hirð þeirra sem stjórna samfélagi okkar. Í þessu verki setur hann eitt og annað í nýtt og óvænt samhengi, en þar kemur 40 ára reynsla hans sem samfélagsrýnir, höfundur og sviðslistamaður í góðar þarfir.

Á laugardagskvöldið fagnar hljómsveitin  Hvanndalsbræður 20 ára starfsafmæli sínu með tvennum tónleikum í Hofi. Hljómsveitin mun fara yfir hinn gæfuríka feril en bræðurnum til stuðnings verður hinn virðulegi Kór eldri borgara á Akureyri “Í fínu formi” undir stjórn Petru Bjarkar Pálsdóttur og sérstakur kynnir verður okkar eini sanni Sóli Hólm.

Á sunnudeginum er komið að tónaveislu í tilefni af 40 ára afmælis Félags eldri borgara á Akureyri. Viðburðurinn heitir Manstu gamla daga og fer fram í Hamraborg í Hofi klukkan 16 og svo aftur klukkan 20. Helena Eyjólfsdóttir verður heiðursgestur tónleikanna, en auk hennar syngja Óskar Pétursson, Margrét Árnadóttir, Magni Ásgeirsson, Saga Jónsdóttir, Grímur Sigurðsson, Þór Sigurðarson og Petra Björk Pálsdóttir, auk þess sem hljómsveitarmeðlimir taka lagið með þeim, enda raddmenn góðir.

Ketilkaffi

UMMÆLI

Sambíó