Hvetur ungt fólk til að kynna sér sjávarútveginnSaga Karen Björnsdóttir. Mynd: Sindri Swan/samherji.is

Hvetur ungt fólk til að kynna sér sjávarútveginn

Saga Karen Björnsdóttir starfar við gæðaeftirlit í fiskvinnslu Samherja á Dalvík. Hún segir sjávarútveg spennandi og skemmtilega atvinnugrein og hvetur ungt fólk til að kynna sér hvaða möguleikar eru til staðar í greininni. Saga Karen segir að flókin hátæknivinnsla kalli á öflugt og stöðugt gæðaeftirlit með öllum þáttum vinnslunnar.

Byrjaði í gæðaeftirliti samhliða flutningum í nýtt húsnæði

„Ég hef starfað hjá Samherja hérna á Dalvík í átta ár og áður var ég hjá öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum. Minn starfsferill tengist meira og minna fiski og augljóst að þessi atvinnugrein höfðar til mín. Þegar vinnslan hérna á Dalvík var flutt í nýtt húsnæði færðist ég yfir í gæðaeftirlitið en í því gamla sinnti ég ýmsum störfum.

Ekkert óviðkomandi

„Gæðaeftirlit snýst um að fylgjast með framleiðslunni frá A til Ö, frá því hráefnið kemur til okkar og þar til flutningabílarnir flytja afurðirnar 

áleiðis í skip eða flug. Eftirlitið er framkvæmt eftir ákveðnum stöðlum, annars vegar þeim sem fyrirtækið setur og hins vegar samkvæmt óskum viðskiptavina um víða veröld. Það má segja að ekkert sé okkur óviðkomandi, til dæmis fylgjumst við vel með hitastigi hráefnisins, umbúðum, stillingum á vélbúnaði og svo mætti lengi telja. Til að ná settum markmiðum þarf auðvitað að vera í góðu sambandi við alla í húsinu og einnig kaupendur, svo þeir geti verið vissir um að fá vöruna eins og um var samið. Lykillinn að góðum árangri er samvinna og samskipti allra.“

Flókin vinnsla kallar á öflugt gæðakerfi

Saga Karen útskrifaðist frá Fisktækniskólanum árið 2018 og á síðasta ári útskrifaðist hún sem Marel-vinnslutæknir, sem er eins árs nám.

„Já, við getum með vissum hætti sagt að gæðaeftirlitið sé fulltrúi kaupenda. Sumir segja að við séum hálfgerðar löggur í húsinu en því fer víðs fjarri. Fiskvinnsluhúsið á Dalvík er afar fullkomið, til dæmis getum við skorið bitana eins og viðskiptavinir óska hverju sinni og oftast er verið að vinna margar mismunandi pantanir á sama tíma. Vinnslan getur því verið nokkuð flókin og það kallar á gott og öflugt gæðakerfi, þannig að framleiðslan og afurðirnar verði eins og stefnt er að. Kröfur um gæðaeftirlit hafa líka aukist með árunum, sem er bara jákvætt.“

Sér ekki eftir því að velja sjávarútveginn

„Þetta er virkilega skemmtilegt starf, maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. Sjávarútvegur er á margan hátt hátæknigrein og hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Þegar við vorum með opið hús í fyrra, voru margir sem höfðu á orð hversu tæknivædd vinnslan er orðin. Ég hvet ungt fólk til að kynna sér sjávarútveginn, sem er miklu meira en fiskur á færibandi. Ég sé ekki eftir því að hafa valið þessa atvinnugrein, síður en svo,“ segir Saga Karen Björnsdóttir.

Sambíó

UMMÆLI