Íbúakosning um skipulagsbreytingu á OddeyriMynd: Akureyri.is

Íbúakosning um skipulagsbreytingu á Oddeyri

Bæjarstjórn samþykkti á bæjarstjórnarfundi í gær, með 11 samhljóða atkvæðum, að vísa breytingu á aðalskipulagi fyrir hluta Oddeyrar í íbúakosningu. Þetta kemur fram á vef bæjarins í dag.

Svæðið afmarkast af Hjalteyrargötu í vestri, Kaldbaksgötu í austri, Gránufélagsgötu í norðri og Strandgötu í suðri. Samkvæmt tillögu sem var auglýst í janúar er gert ráð fyrir blandaðri byggð með 100-150 íbúðum í fjölbýlishúsum og atvinnustarfsemi á neðstu hæð í hluta þeirra.

Sjá einnig: Húsin á Oddeyri verði fimm til sex hæðir að hámarki

Svæðið sem um ræðir hefur verið mikið í umræðunni eftir að upprunaleg breyting á aðalskipulagi var samþykkt í bæjarstjórn í október árið 2019. Hverfisnefnd Oddeyrar mótmælti áformunum, stofnaður var Facebook-hópur til að mótmæla áformunum og einnig var undirskriftarlisti á netinu fyrir þá sem voru á móti háu byggingunum.

Síðan þá hafa áformaðar breytingar á reitnum breyst og hefur til að mynda verið ákveðið að húsin verði ekki hærri en fimm til sex hæðir, samanborið við sex til ellefu hæða húsin sem upprunalega voru í áformunum. Samkvæmt aulýstri tillögu skulu byggingar ekki ná hærra en 25 metra yfir sjávarmáli.

Á vef Akureyrarbæjar segir að íbúar hafi sýnt málinu mikinn áhuga og alls hafi borist um 100 athugasemdir við auglýsta tillögu.

„Meirihluti skipulagsráðs lagði til við bæjarstjórn að samþykkja tillöguna með breytingum til að koma til móts við hluta athugasemda og umsagna. Í þeim felst að hámarkshæð húsa lækkar enn frekar, niður í 20 m.y.s., sem felur í sér að húsin geta verið 5-6 hæðir að hámarki en jafnframt eru sett inn ákvæði um að syðstu húsin megi að hámarki vera 4 hæðir,“ segir í tilkynningu bæjarins.

„Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum í gær að íbúar fái að kjósa um aðalskipulagsbreytinguna og lagði til að kosningin fari fram með rafrænum hætti í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar eigi síðar en 31. maí. Þessi ákvörðun er í samræmi við samstarfssáttmála bæjarstjórnar sem var undirritaður í september síðastliðnum. Fyrir liggur að útfæra nánar fyrirkomulag kosningarinnar og verða nánari upplýsingar gerðar aðgengilegar þegar nær dregur. Rík áhersla verður lögð á að kynna málið vel fyrir íbúum, hvetja fólk til þátttöku og útskýra þá valkosti sem standa til boða.“

Sambíó

UMMÆLI