Íbúar í Giljahverfi ósáttir með nýtt leiðanet Strætó

Íbúar í Giljahverfi ósáttir með nýtt leiðanet Strætó

Nýtt leiðanet Strætisvagna Akureyrar var kynnt á dögunum. Í leiðanetinu eru lagðar fram breytingar þannig að ekki er lengur ekið í gegnum Giljahverfi um Merkigil. Íbúar í Giljahverfi eru ósáttir við breytinguna.

Sjá einnig: Styttri biðtími á annatíma í nýju leiðaneti Strætisvagna Akureyrarbæjar

Á vefsvæði verkefnisins segir að mikill fjöldi athugasemda hafi borist vegna breytingarinnar í Giljahverfi enda sé um að ræða talsverða breytingu fyrir þá sem búa næst Merkigili og að í sumum tilvikum aukist göngufjarlægðir talsvert.

Í endurskoðun á tillögum að nýju leiðaneti var leitað leiða til að koma á móts við þessar athugasemdir, en ekki fannst nógu góð lausn og því standa breytingarnar. 

Íbúi í Giljahverfi sem ræddi við Kaffið segir að það geti meðal annars orðið stór hættulegt fyrir börn að þurfa að fara yfir Hlíðarbraut til þess að taka strætó.

„Börn í fimmta bekk og upp úr þurfa að labba niður fyrir Hlíðarbraut til að taka strætó og svo er ekki frístundavagn á sumrin fyrir fyrsta, öðrum, þriðja og fjórða bekk. Það er ekki ráðlagt að börn undir 12 ára ferðist ein í umferðinni. Ekki fyrr en við 12 ára aldur eru börn komin með fjarlægðar sjón. Þetta verður stór hættulegt að hafa börn að fara yfir Hlíðarbraut,“ segir íbúinn og bætir við að hann muni sjálfur líklegast hætta að nota strætó þegar breytingarnar taka gildi.

„Það verður svo langt að ganga frá efstu götunum í Giljahverfi að ég mun þurfa að hætta að taka strætó, eitthvað sem ég geri á hverjum virkum degi núna.“

Á vefsvæði nýja leiðakerfisins segir að skoðað hafi verið að breyta kerfinu þannig að önnur leiðin, leið 1 eða leið 2, færi inn í Giljahverfi. Við nánari skoðun hafi komið í ljós að um of langan krók yrði að ræða fyrir leið 2 að aka frá Borgarbraut um Merkigil. Við nánari skoðun á leið 1 hafi verið athugað hvort væri hægt að lengja leiðina inn um Kiðagil þar sem um tiltölulega stutta lengingu væri að ræða.

Aftur á móti kom í ljós að aðstæður þar henta ekki fyrir akstur strætisvagna – akstur um götuna getur verið erfiður og talsverðar umferðartafir geta myndast í götunni á morgnana, sérstaklega út á Borgarbraut, sem myndi koma niður á áreiðanleika leiðarinnar. Því var ákveðið að halda leiðum 1 og 2 óbreyttum.

Hér á vefsvæði verkefnisins er hægt að finna allar upplýsingar um nýja leiðanetið.

Nýtt leiðakerfi Strætisvagna Akureyrar

UMMÆLI