Eldur kviknaði í iðnaðarhúsnæði á Siglufirði í gærkvöldi. Um 40 slökkviliðsmenn frá Siglufirði, Dalvík og Akureyri tóku þátt í slökkvistarfinu. Enginn var í húsinu þegar eldurinn kviknaði.
„Það er búið að slökkva eldinn en við erum enn að slökkva glæður og eldhreiður í húsinu. Við fengum stórvirkar vinnuvélar til að hjálpa okkur að krabba þakið niður í nótt,“ sagði Jóhann K. Jóhannsson, slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð, í viðtali við fréttastofu RÚV upp úr klukkan sjö í morgun. Þá var um hálfur sólarhringur síðan eldurinn kviknaði.
Aðstæður við slökkvistarf voru ekki þær bestu en töluvert hvassviðri var á köflum. Jóhann segir í samtali við RÚV að ómögulegt sé að segja til um hvort eldurinn hafi eyðilagt húsið en það sé ljóst að miklar skemmdir hafi orðið á því. Full starfsemi var í húsinu og ljóst að töluvert tjón hlaust af eldinum.


COMMENTS