Ífigenía í Ásbrú í Samkomuhúsinu – „Allt upp á 10 í fallegasta leikhúsi landsins“

Ífigenía í Ásbrú í Samkomuhúsinu – „Allt upp á 10 í fallegasta leikhúsi landsins“

Það var góð stemning í salnum þegar Ífigenía í Ásbrú var sýnd í Samkomuhúsinu á Akureyri í gærkvöld. Verkið er breskt verðlaunaverk eftir Gary Owen sem hefur farið sigurför um heiminn og hefur nú verið þýtt og staðfært á Suðurnesin. 

Leikritið fjallar um Ífí, stelpuna sem þú tekur sveig framhjá þegar þú mætir henni hauslausri fyrir hádegi. En það sem þú veist ekki er að þú stendur í ævilangri þakkarskuld við hana og nú er komið að skuldadögum. 

Ífigenía í Ásbrú er kraftmikill einleikur um unga konu sem býr á Ásbrú og tekst á við samfélag sem hefur brugðist henni. Verkið hefur fengið einróma lof gagnrýnenda og Þórey Birgisdóttir hlaut tilnefningu til Grímunnar 2025 sem leikkona ársins í aðalhlutverki fyrir leik sinn.

Verkið var upphaflega frumsýnt í Tjarnarbíó en fékk framhaldslíf í Borgarleikhúsinu og nú í Samkomuhúsinu þessa helgi. 

Þórey Birgisdóttir hlaut tilnefningu til Grímunnar 2025 sem leikkona ársins í aðalhlutverki

„Þetta er sterkt og áhrifaríkt verk sem hreyfir við fólki. Sýningin er bæði fyndin og sársaukafull og sýnir inn í hugarheim manneskju sem flestir sjá en fáir skilja. Sýningin er framleidd af hópi kvenna sem telst sjaldgæft í íslensku leikhúsi og mega áhorfendur búast við hrárri og einlægri sýningu sem lætur engan ósnortin,“ segir Gígja Hilmarsdóttir aðstoðarleikstjóri í spjalli við Kaffið.is.

Konurnar sem standa að leiksýningunni segjast himinlifandi yfir því að vera mættar norður og segja að dagskráin hafi verið þétt þessa helgina.

„Við mættum með fyrsta og eina fluginu á föstudagsmorgun og höfum fengið frábærar móttökur hér í Samkomuhúsinu með rétt fólk í hverju horni. Akureyrarbær getir stært sig af frábæru fagfólki sem hlúir svakalega vel að sviðslistum hér í bæ, allt upp á 10 í fallegasta leikhúsi landsins.“

„Fyrri sýningin gekk eins og í sögu og við hlökkum til að sýna aftur fyrir Akureyringa í kvöld en ætlum að nýta daginn í dag og kíkja á kaffihús, frábæra veitingastaði hér á Akureyri og auðvitað skella okkur í Skógarböðin.“

Síðari sýningin er í Samkomuhúsinu klukkan 20.00 og miðasala fer fram á mak.is.

COMMENTS