iLo leikur sér að eldinum í nýjustu tónlistarsköpun sinni

iLo leikur sér að eldinum í nýjustu tónlistarsköpun sinni

iLo gaf út lagið Playing With Fire, af komandi plötu, á dögunum. iLo er listamannanafn Einars Óla, en þetta er fyrsta lagið sem hann gefur út á streymisveitur.

Einar hefur verið að vinna að plötu og er hann búinn að semja og taka upp af miklum krafti síðastliðin tvö ár. Nú er hann kominn með bunka af lögum í bankann. Plötuna vinnur hann í samstarfi með Kristjáni Edelstein sem hefur stjórnað upptökum, gripið í allskonar hljóðfæri og séð um hljóðblöndun.

„Þetta er sennilega besta textasmíði sem ég hef skapað. Lagið kom mjög náttúrulega til mín og ég heyrði öll smáatriðin fyrir mér nánast strax. Lagið fjallar um samband sem hangir á bláþræði,“ segir Einar Óli við Kaffið.

„Þetta er búið að vera langt og strembið verkefni en í leiðinni svo gefandi og skemmtilegt. Ég hef beðið lengi eftir því að geta komið þessu í loftið en þetta var klárlega biðarinnar virði.“

Ásamt því að semja lagið og textann, sá Einar sjálfur um píanóleik og söng en með honum var úrvalshópur af góðu tónlistarfólki. Andrea Gylfadóttir spilaði á selló, Emil Þorri Emilsson á slagverk, bakraddirnar eru svo þær Arna Rún Ómarsdóttir, Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir og Rósa Björg. Haukur Pálmason sá svo um hljóðjöfnun.

Lagið er komið út á allar helstu streymisveitur en það er nóg á döfinni hjá Einari Óla. Titillag komandi plötu hans, Mind Like a Maze, kemur til að mynda út þann 11.desember næstkomandi.


Goblin.is

UMMÆLI

Sambíó