beint flug til Færeyja

Íslandsmeistaramót í BJJ – Helmingur keppenda Atlantic snúa heim sem ÍslandsmeistararKristína og Tómas á verðlaunapöllunum. Myndir: Rut Pétursdóttir.

Íslandsmeistaramót í BJJ – Helmingur keppenda Atlantic snúa heim sem Íslandsmeistarar

Íslandsmeistaramót fullorðinna í glímuíþróttinni brasilísku jiu-jitsu (BJJ) fór fram í Reykjavík í dag. Fjórir glímukappar kepptu fyrir hönd akureyrska glímuklúbbsins Atlantic Jiu-Jitsu á mótinu. Tveir þeirra keppenda, Tómas Pálsson og Kristína Marsibil, snúa heim sem Íslandsmeistarar.

Þjálfarinn ekki lengur bara á hliðarlínunni

Tómas Pálsson er yfirþjálfari og eigandi Atlantic Jiu-Jitsu, en það er eina íþróttafélag á Akureyri þar sem íþróttin er stunduð. Hann var einn af þeim sem kepptu fyrir hönd Atlantic á Íslandsmeistaramótinu í dag og stóð sig með eindæmum vel. Það er ekki oft sem Tómas stígur sjálfur á motturnar á mótum sem þessum, enda er hann oftar í því hlutverki að leiðbeina nemendum sínum af hliðarlínunni. Þeir vita það þó sem vita vilja að Tómas er ekkert lamb að leika við, enda með svart belti í íþróttinni og æfir enn af fullum krafti. Það voru því margir spenntir fyrir því að sjá Tómas keppa aftur eftir langt hlé. Sigurpáll Albertsson, skipuleggjandi Íslandsmótsins, sagði til dæmis í pistli á íþróttamiðlinum MMAFréttir stuttu fyrir mótið: „Síðan er Tómas Pálsson, ‚legendið‘ sjálft, maðurinn á bakvið Atlantic AK. Svart belti og setur alltaf upp rosalegt show þegar hann keppir.“ Þessi orð Sigurpáls reyndust hárrétt, því Tómas sigraði nær allar sínar glímur í dag á uppgjafartaki.

Í sinni fyrstu glímu mætti Tómas Hallgrími Frey Baldurssyni, sem hann sigraði með uppgjafartaki á annari mínútu. Hallgrímur er sjálfur iðkandi hjá Atlantic Jiu-Jitsu og mjög efnilegur, en hann hlaut silfur í sínum flokki á Íslandsmeistaramótinu í fyrra. Þá keppti Hallgrímur í blábeltingaflokki, en í BJJ er það algeng venja að skipta keppendum niður eftir beltalit. Líkt og í öðrum bardagalistum eru BJJ iðkendur gráðaðir í beltakerfi eftir hæfni og reynslu og bláa beltið, sem Hallgrímur hefur, er það næst lægsta en svarta beltið, sem Tómas hefur, er það hæsta. Á mótinu í dag voru ekki nógu mörg blá belti skráð til leiks í þyngdarflokki Hallgríms, svo hann var færður upp í flokk efri belta. Honum tókst ekki að sigra neina glímu í þeim flokki. Sökum skróps annars keppanda var þó flokkurinn tiltölulega fámennur, svo Hallgrímur hlaut samt vel verðskuldað brons fyrir erfiðið.

Tómas mætti svo Þorgrími Þórissyni frá Reykjavík MMA í úrslitunum í sínum flokki og sigraði hann með uppgjafartaki á fjórðu mínútu. Tómas snýr því heim til Akureyrar sem Íslandsmeistari í undir 100,5 kílóa flokki efri belta. Tómas lét það þó ekki duga og skráði sig einnig til leiks í opnum flokki. Þar sigraði hann tvo keppendur frá Mjölni og komst í úrslitin gegn öðrum Mjölnismanni, Stefáni Fannari. Stefán er einn besti glímukappi á Íslandi og var Tómasi að þessu sinni um megn, svo Tómas hlaut silfur í opnum flokki karla.

Kristína tvöfaldur Íslandsmeistari

Kristína Marsibil keppti fyrir hönd Atlantic í dag í undir 74 kílóa flokki efri belta. Þar mætti hún Heklu Maríu Friðriksdóttur frá Reykjavík MMA og Sigurdísi Helgadóttur frá VBC. Kristína sigraði þær báðar með uppgjafartaki og er því Íslandsmeistarí undir 74 kílóa flokki efri belta.

Kristína er einn af allra sterkustu keppendum Atlantic og hefur náð miklum keppnisárangri undanfarið. Hún vann sér til að mynda inn gull í opnum flokki kvenna á Grettismótinu í fyrra, en öllu merkilegra í samhengi við daginn í dag er að hún varð Íslandsmeistari í undir 60 kílóa flokki efri belta á Íslandsmeistaramótinu í No-gi BJJ í vor. Kristína er því sem stendur tvöfaldur Íslandsmeistari í BJJ, bæði í Gi og No-gi.
Til útskýringar: Almennt er keppt í tveimur greinum á BJJ mótum. Annars vegar „Gi,“ þar sem keppt er í sérstökum göllum líkt og í myndinni hér að ofan og hins vegar „No-gi“ þar sem keppt er í hefðbundnum æfingafatnaði. Stundum er greinunum skipt í tvö mót og þannig var Íslandsmeistaramót í No-gi haldið í maí þetta árið, en Íslandsmeistaramót í Gi fór fram í dag.

Kristína skráði sig einnig til leiks í opnum flokki kvenna í dag, en tapaði því miður á stigum fyrir Söru Dís Davíðsdóttur úr Mjölni í fyrstu umferð.

Hallgrímur og Tanja með brons

Tanja Lilja Jónsdóttir keppti einnig fyrir hönd Atlantic í dag. Tanja réðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, en um er að ræða fyrsta mótið hennar og það sjálft Íslandsmeistaramótið. Hún keppti í undir 74 kílóa flokki hvítbeltinga og fékk að glíma tvær glímur, en tapaði þeim því miður báðum á stigum. Hennar flokkur var þó fámennur og endaði hún því í þriðja sæti og fær brons fyrir vikið, rétt eins og Hallgrímur.

Tveir Akureyringar í úrslitum

Loks ber að segja stuttlega frá undir 88,3 kílóa flokki efri belta, því tveir Akureyringar mættust þar í úrslitaglímu. Breki Harðarson og Vilhjálmur Arnarsson kepptu báðir fyrir hönd Mjölnis á mótinu enda æfa þeir þar dagsdaglega, en þeir eru báðir Akureyringar sem hófu glímuferil sinn hér norðan heiða. Þeir mættust í úrslitum í sínum flokki í dag og hafði Vilhjálmur betur í þetta skiptið, en hann sigraði Breka á stigum 4-0 og er því Íslandsmeistari í undir 88,3 kílóa flokki efri belta.

VG

UMMÆLI