Gæludýr.is

Íslenskt þekkingarsamfélag tekur forystu í málefnum norðurslóða

Íslenskt þekkingarsamfélag tekur forystu í málefnum norðurslóða

Bandaríska fréttatímaritið Newsweek fjallar í nýlegu tölublaði um það mikilvæga hlutverk sem Ísland gegnir í alþjóðlegu samstarfi um málefni norðurslóða, einkum nú þegar landið fer með formennsku í Norðurskautsráðinu, en það er samstarfsvettvangur fyrir svæði sem yfir 4 milljónir manns nú byggja og skiptist milli 8 ríkja. Málefni norðurslóða eru sérstaklega þýðingarmikil fyrir Ísland og formennska okkar í Norðurskautsráðinu hefur reynst einstakt tækifæri til að móta þar áherslur til hagsbóta fyrir svæðið og íbúa þess.

Á Akureyri eru ýmsar stofnanir sem sinna þessum málefnum enda hafa stjórnvöld með markvissum hætti byggt þar upp öfluga norðurslóðamiðstöð. Það er verðmætt fyrir land og þjóð að búa að öflugum þekkingarsamfélögum og okkar sérfræðingar á Akureyri hafa svo sannarlega tekið forystu í þeirri þekkingarvinnu sem styður við störf Norðurskautsráðsins, einkum gagnvart þeim málaflokkum sem snúa að velferð fólks og samfélaga. Blaðamaður Newsweek hafði samband við þrjár leiðandi fræðakonur á Akureyri, þær Eydísi Kr. Sveinbjarnardóttur, dósent og forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri, og Emblu Eir Oddsdóttur, forstöðumanns Norðurslóðanets Íslands, sem leiða um þessar mundir tvo sérfræðingahópa á vegum Norðurskautsráðsins, og Rachael Lorna Johnstone, prófessor við Lögfræðideild Háskólans á Akureyri, sem hefur skapað sér nafn sem einn helsti sérfræðingur þjóðarinnar í heimskautarétti og stjórnarfari á norðurslóðum. Þær Eydís og Embla hafa staðið í ströngu, ekki síst þar sem heimsfaraldurinn COVID-19 hefur kallað eftir frekari samvinnu og samtali milli þeirra þjóða sem koma að Norðurskautsráðinu.

Síðastliðið sumar kom út skýrsla á vegum ráðsins sem greindi áhrif faraldursins fyrir svæði sem mörg hver eru dreifbýl, en skýrslan tók sömuleiðis á því hvernig ríkin gætu best átt samstarf um viðbrögð og aðgerðir vegna COVID-19 og neikvæðra áhrifa til lengri tíma litið. Þessi vinna heldur áfram, en heimsfaraldurinn minnir okkur á að norðurslóðir eru fjarri því að vera einangraðar frá umheiminum, líkt og Rachael Lorna Johnstone áréttar í viðtalinu. Mikilvægi norðurslóða hefur löngum verið þekkt þegar kemur að loftslagsvánni og ýmsum þeim umhverfisbreytingum sem eru nú bersýnilegar víða um heim. Áframhaldandi aðlögun samfélaga á norðurslóðum að þessum breytingum er án vafa eitt mikilvægasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í dag, en aðrar breytingar hafa ekki síður verið áberandi á svæðinu, þar sem mannleg umsvif og auðlindanýting hafa stóraukist.

Hér má finna viðtalið í heild sinni, unnið af Country Reports (samstarfsaðila Newsweek): https://iceland.country-reports.net/interviews/

Samantekt Newsweek má finna hérhttps://d.newsweek.com/en/file/460702/iceland-country-report.pdf

„Það er mikilvæg að vanmeta ekki mikilvægi norðurslóða, einkum nú þegar aukin spenna hefur myndast milli stórveldanna á svæðinu. Við slíkar aðstæður er Norðurskautsráðið mikilvægur vettvangur fyrir samtal ríkjanna. Formennska Íslands í Norðurskautsráðinu felur einnig í sér heilmikla viðurkenningu á því hlutverki sem við gegnum gagnvart svæðinu, og færir okkur frekari sönnur á hversu mikilvægt það er fyrir okkur sem smáríki að taka þátt í alþjóðlegri vinnu sem þessari um sjálfbæra þróun svæðisins. Við höfum tækifæri til að koma á framfæri þeim málum sem við teljum að eigi að setja í forgang. Þar má nefna sem dæmi vistvæna orku en það er málaflokkur sem stendur okkur nærri og þar teljum við okkur hafa eitthvað fram að færa. En það má nefna aðra málaflokka, svo sem vistkerfi sjávar, öryggi og mengunarvarnir á hafi, plastmengun og fleira. Í þessum málaflokkum viljum við augljóslega stefna að framsýnum lausnum og sjálfbærri þróun.“

Embla Eir Oddsdóttir, forstöðumaður Norðurslóðanets Íslands

„Ég vil gjarna undirstrika þá staðreynd að frumbyggjar á norðurslóðum hafa frá fornu fari byggt svæðið, sumstaðar í árþúsundir. Íbúar norðurslóða búa að langri sögu og langri hefð og hafa staðið af sér farsóttir áður. Bakgrunnur minn er fyrst og fremst úr geðhjúkrun og þar liggur áhugasvið mitt. Við sem störfum að málefnum geðheilbrigðis deilum mikilvægum skilaboðum með samfélögum frumbyggja, sem eru “ekkert um mig án mín” – enda báðir hópar langþreyttir á að vera sagt af öðrum hvað sé rétt eða rangt að gera. Við verðum því að stíga varlega niður fæti þegar við íhugum möguleg viðbrögð sem og gagnsemi þeirra við að ná tökum á COVID-19 heimsfaraldrinum. Það er skylda okkar að hlusta á fólk og horfa til þess hverjar þarfir þeirra og samfélaganna eru.“

Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir, dósent og forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri

„Norðurslóðir eru einstakt svæði og heimshlutinn um margt frábrugðinn öðrum heimshlutum – en þó ekki sérstæður  í þeim skilningi að norðurslóðir séu út af fyrir sig í heimsskipaninni. Margt af því sem við sjáum og upplifum á norðurslóðum er hluti af hnattrænu mynstri, en það þýðir auðvitað líka að þegar við rýnum í þróunina á norðurslóðum þá verður til þekking sem getur nýst öðrum heimshlutum sömuleiðis. Norðurslóðir eru þannig hluti af hnattræna hagkerfinu og hluti af alþjóðlegu lagaumhverfi, en þar stendur þjóðarréttur á sviði hafréttar sannarlega upp úr. Norðurslóðir skipa einnig mikilvægan sess þegar ræða á alþjóðaöryggi, enda leiksvið stórveldanna allt frá tímum kalda stríðsins þótt ákveðið jafnvægi hafi ríkt síðustu áratugi. Að endingu eru norðurslóðir hluti af hnattrænu loftslagi og umhverfi.“

Rachael Lorna Johnstone, prófessor í lögfræði við Háskólann á Akureyri

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó