Prenthaus

Jafnlaunavottun er framtíðin

Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir skrifar:

Árið er 2019. Magga er mætt í vinnuna, fyrsti dagurinn á nýju ári. Henni líður vel í vinnunni og hefur gaman af því að sinna erfiðum verkefnum sem bíða hennar og samstarfsfólki hennar á hverjum degi. Þau starfa í stóru íslensku fyrirtæki með nokkur útibú, en þeirra starfstöð er á Akureyri. Andinn er eitthvað öðruvísi nú en fyrir jólafrí. Það er eins og það sé léttara yfir. Jóna í næsta bás kemur askvaðandi inn á öðru hundraðinu, alltaf sami æsingurinn í henni. Hendir af sér kápunni og treflinum með fullt af snjó á og hálfpartinn öskrar yfir skrifstofurýmið ,,LOKSINS”. Magga starir á hana í skilningsleysi, Jóna sér augnaráðið og sækir rúllustólinn sinn sem hún rúllar á því sem virðist vera ógnahraði og smellir sér hliðina á Möggu.

,,Bíddu vissirðu ekki að við fengum jafnlaunavottunina samþykkta á milli jóla og nýárs? Siggi framkvæmdastjóri er búinn að vera á fullu síðustu mánuði, enda rann fresturinn út núna bara um mánaðarmótin.”
Magga var búin að heyra eitthvað um þessa vinnu en spurði aldrei nánar út í það og miðað við glampann í augunum á Jónu þá þurfti hún ekki að spyrja ,,ooooog veistu hvað þetta þýðir!?” án þess að bíða eftir svari þá hélt hún hálf tryllingslega áfram:

,,Að konum og körlum sem starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Með þessu skrefi er verið að eyða út óútskýrðum kynbundnum launamun, auka gagnsæi og tryggja það að ef launamunur er til staðar þá er hann byggður á málefnalegum, skriflegum rökum. Finnst þér það ekki frábært að þurfa ekki lengur að velta fyrir þér hvort þú sért með lægri laun en sá sem starfar í næsta bás og sinnir sama starfi og þú? Framtíðin er hér Magga, ég er að segja það! Loksins!”

Október 2017.
Nú stöndum við frammi fyrir Alþingiskosningum. Viðreisn sat í síðustu ríkisstjórn og á stuttum tíma voru sett fram mikilvægustu málin til afgreiðslu, þar á meðal frumvarp um jafnlaunavottun. Það var samþykkt og tekur gildi 1. janúar 2018. Á næstu fjórum árum þurfa öll fyrirtæki á Íslandi með fleiri en 25 starfsmenn að uppfylla skilyrði vottunarinnar og sýna svo fram á hana árlega meðfram útgáfu ársreikninga ásamt því að endurnýja vottunina á þriggja ára fresti. Jafnlaunavottunin mun fyrir árslok 2022 ná yfir 80% þeirra sem virkir eru á vinnumarkaði. Þetta er mál sem skiptir okkur öll máli því með þessu skrefi ætlum við að útrýma óútskýrðum kynbundnum launamun sem er í dag samfélagsmein. Næsta skref er að rýna enn betur í vinnumarkaðinn og skekkjuna sem er viðvarandi á launamarkaði. Næsta skref er þjóðarsátt um bætt kjör svokallaðra kvennastétta. Gefðu okkur tækifæri til.

Settu X við C á kjördag.

Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir
Höfundur er stjórnmálafræðingur og mannauðsstjórnunarnemi á Akureyri og frambjóðandi Viðreisnar í Norðausturkjördæmi.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó