Jákvæðar horfur í atvinnumálum Húsavíkur

Jákvæðar horfur í atvinnumálum Húsavíkur

Mikil uppbygging hefur átt sér stað á Húsavík á undanförnum árum, langstærsta verkefnið er bygging kísilmálmsverksmiðjunnar PCC á Bakka. Í tengslum þessar framkvæmdir var reist jarðvarmavirkjun á Þeistareikjum, auk þess sem ráðist var í miklar endurbætur á höfninni. Allt þetta kallaði á þennslu í atvinnulífinu, en nú er vinnsla hafin í verksmiðjunni. 

Ferðaþjónusta er öflug á Húsavík og nýjasta nýtt í ferðaþjónustunni eru sjóböð á Húsavíkurhöfða sem hafa hlotið mjög góðar viðtökur. N4 var á Húsavík í síðustu viku og talaði við sveitarstjórann og eigendur veitingahússins Sölku. 

Úr viðkomustað í dvalarstað

„Verksmiðjan er ein helsta stoðin í atvinnumálum staðarins. Fyrir stað eins og Húavik er lykilatriði að fjölbreytinin sé sem mest. Ferðaþjónustan hefur byggst upp með miklum hraða víða á landinu, Húsavík er reyndar mjög gott dæmi um uppganginn í ferðaþjónustunni.  Hérna hafa verið starfrækt hvalaskoðunarfyrirtæki í nokkuð langan tíma með tilheyrandi margfeldisáhrifum. Sjóböðin á Húsavíkurhöfða opnuðu síðasta haust og ég tel að þau komi til með að breyta ýmsu í ferðaþjónustunni og atvinnumálum. Sjóböðin gera það að verkum að ferðafólk dvelur mun lengur á Húsavík, sem í mörgum tilvikum gerir það að verkum að fleiri velja að gista hérna. Húsavík breytist með öðrum orðum úr viðkomustað í dvalarstað og það er mikils virði fyrir okkur og styrkir ferðaþjónustuna mikið,“ segir Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings. 

Mikið að gera á Sölku

Guðrún Þórhildur Emilsdóttir og Guðbjartur Fannar Benediktsson reka veitingastaðinn Sölku á Húsavík. Veitingastaðurinn er opinn allan ársins hring. Þau segja að veturinn hafi verið mjög góður og mikið að gera. 

 „Við heyrum það á viðskiptavinum okkar að þeir séu á leið í sjóböðin eða koma frá þeim, þannig að það er alveg á hreinu að böðin draga að sér marga, sem síðan hefur jákvæða áhrif á til dæmis veitingastaðinn okkar. Húsavíkingar eru sömuleiðis mjög tryggir og góðir viðskiptavinir, sem við erum afskaplega þakklát fyrir. Uppbygging sjóbaðanna tókst vonum framar og lengir ferðamannatímabilið til muna, þótt reynslan sé ekki mikil enn sem komið er. Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað jafnt og þétt yfir vetrarmánuðina og við bindum vissulega miklar vonir við sjóböðin, sérstaklega varðandi það markmið að fá ferðafólk til að dvelja lengur á svæðinu. Ferðafólki hefur líka fjölg-að hérna eftir að Vaðlaheiðargöng voru opnuð, Akureyringar hafa verið fjölmennir hérna á Sölku eftir að göngin opnuðu,“ segja þau Guðrún Þórhildur og Guðbjartur. 

Nánar er rætt við Kristján, Guðrúnu og Guðbjart í N4 dagskránni þessa vikuna. Hægt er að lesa hana með því að smella hér.

Sambíó

UMMÆLI