Jóhann Helgi á förum frá Þór

Jóhann Helgi er á leiðinni til Grindavíkur

Jóhann Helgi Hannesson og Orri Freyr Hjaltalín eru á leið til Grindavíkur samkvæmt öruggum heimildum Fótbolta.net. Báðir eru þeir samningslausir og fara því frítt til Suðurnesjaliðsins.

Jóhann Helgi hefur leikið fyrir Þór allan sinn feril og skorað 61 mark í 207 leikjum fyrir félagið. Í heildina skoraði hann 14 mörk í 59 leikjum í efstu deild. Jóhann skoraði 6 mörk fyrir Þór í Inkasso-deildinni síðastliðið sumar.

Hann fær það hlutverk að leysa af markakóng Pepsi-deildarinnar síðasta sumar, Andra Rúnar Bjarnason, af hólmi. Andri Rúnar skrifaði undir hjá Helsingborg í Svíþjóð á dögunum.

Reynsluboltinn Orri Freyr verður þá hluti af þjálfarateymi Grindavíkur og til taks sem leikmaður. Orri Freyr þekkir vel til í Grindavík en hann spilaði með liðinu á árunum 2004-2011. Síðasta sumar spilaði Orri 20 leiki fyrir Þór í Inkasso-deildinni. Á ferli sínum hefur hann skorað 66 mörk í 350 deildar og bikarleikjum.

UMMÆLI