Jóhann Helgi: Verður skrítið að spila í gulu

Jóhann Helgi er genginn til liðs við Grindavík

Akureyringurinn Jóhann Helgi Hannesson er genginn í raðir Grindavíkur í fótbolta og mun leika með liðinu í Pepsi deildinni næsta sumar. Jóhann hefur leikið með Þór Akureyri allan sinn feril og spilað yfir 200 leiki. Jóhann hefur oft áður verið orðaður burt frá Þór og hafa mörg stærstu lið Íslands vilja tryggja sér þjónustu framherjans í gegnum tíðina. Hann hefur þó alltaf haldið tryggð við liðið og er til að mynda með Þórsmerkið húðflúrað á bringuna þar sem hjartað er. Það kom því stuðningsmönnum liðsins töluvert á óvart þegar fréttir bárust af því að hann væri á leið til Grindavíkur.

„Helsta ástæðan fyrir því að ég ákvað að fara núna er aldurinn. Ég áttaði mig á því í sumar þegar ég fór yfir 200 leiki fyrir Þór að ferillinn er ekki endalaust og mig langar að spila meira í efstu deild,“ segir Jóhann í samtali við Kaffið.is.

„Grindavík er vel spilandi lið með frábæran þjálfara. Ég vil frekar búa fyrir utan höfuðborgina svo staðsetningin er einnig plús.“

Jóhann er mikill Þórsari en Grindvíkingar spila í eins búningum og erkifjendurnir í KA, þ.e. gulum og bláum. Aðspurður segir Jóhann að það verði mjög skrítið að spila í gulu en það hljóti að venjast fljótt. „Við spiluðum leik í gær og vorum bláir til þess að venja mig rólega við þessa breytingu.“

Jóhann leysir af hólmi Andra Rúnar Bjarnason hjá Grindavík sem var markahæsti leikmaður Pepsi deildarinnar í fyrra og jafnaði markamet deildarinnar. Jóhann segist stefna að því að skora meira en hann hefur áður gert í Pepsi deildinni og bæta sig sem fótboltamaður.

Stuðningsmenn Þórs munu sjá á eftir þessum öfluga leikmanni og frábæra karakter. Jóhann Helgi vonast þó til þess að spila aftur fyrir Þór einn daginn. Þegar Kaffið spurði hann hvort hann myndi einhvern daginn spila aftur fyrir Þór var svarið: „Já, ég vona það svo sannarlega.“

 

 

UMMÆLI