Þann 30. júní næstkomandi veitir Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri Jóhanni Páli Árnasyni heiðursdoktorsnafnbót á sviði félagsvísinda.
Jóhann Páll Árnason, prófessor emeritus við La Trobe háskóla, er einhver allra merkasti kenningasmiður Íslendinga fyrr og síðar á sviði hug- og félagsvísinda. Verk hans hafa markað djúp spor í hinum alþjóðlega fræðaheimi og má þar helst nefna endurhugsun Jóhanns á kenningu Karl Jaspers um Öxultímabilið 800–300 árum fyrir Kristburð (e. Axial Age) og mismunandi leiðir ólíkra menningarheima inn í nútímann (e. multiple modernities).
Jóhann lauk stúdentsprófi árið 1958 frá MA og hélt þá til Prag þar sem hann stundaði nám í heimspeki og sagnfræði við Karls-háskólann frá 1960 til 1966. Hann kenndi við MA frá 1967 til1968 og nam heimspeki og félagsfræði við Háskólann í Frankfurt frá 1968 til1970. Þaðan lauk hann doktorsprófi í heimspeki 1970 og skrifaði doktorsritgerð undir handleiðslu hins þekkta félagsheimspekings Jürgens Habermas.
Jóhann var styrkþegi Alexander von Humboldt stofnunarinnar frá 1970 til1972 og kenndi félagsfræði við Heidelberg háskóla frá 1972 til1975. Hann kenndi jafnframt við Bielefeld háskóla á sumarönn 1975 og lauk samhliða doktorsritgerð hinni meiri (þýs. Habilitation). Frá 1975 til 2003 starfaði Jóhann við félagsvísindadeild La Trobe háskólans í Melbourne. Frá 2007 til 2014 kenndi hann við hugvísindadeild Karls-háskólans í Prag. Frá 2007 hafa Jóhann og kona hans, María Jansdóttir, verið búsett á Akureyri og hefur hann m.a. kennt við Félagsvísindadeild HA. Jóhann hefur aukinheldur verið gestaprófessor við ýmsa háskóla og rannsóknastofnanir í Þýskalandi, Frakklandi, Japan, Svíþjóð og á Ítalíu. Jóhann fékk sérstök rannsóknarverðlaun (þýs. Forschungspreis) frá Alexander von Humboldt stofnuninni 2008 og var gerður að heiðursdoktor við Háskóla Íslands 2011.
Í fræðilegri vegferð sinni sem spannar 65 ár hefur heimsborgarinn Jóhann haldið sig á mörkum félagsfræði, heimspeki og sagnfræði. Eftir hann liggja fjölmargar bækur og greinar sem hverfast aðallega um kenningarlega og sögulega félagsfræði með sérstaka áherslu á samanburð ólíkra menningarheima og þjóðfélagsbreytingar. Á síðasta ári kom m.a. út á íslensku bókin Austur, vestur og aftur heim sem inniheldur þverskurð af þeim rannsóknum á sviði félagsfræði, siðmenningargreiningu og heimspeki sem Jóhann hefur lagt stund á.
Málþing og formleg athöfn öllum opin
Í tilefni af veitingu heiðursdoktorsnafnbótarinnar 30. júní verður sama dag haldið málþing við Háskólann á Akureyri undir yfirskriftinni „Austur, vestur og aftur heim: Söguleg félagsfræði Jóhanns Páls Árnasonar“. Málþingið fer fram milli kl. 13.00 og 15.30 þar sem fræðimenn munu fjalla um og eiga orðastað við Jóhann um mikilsvert framlag hans til fræðanna. Í framhaldi af málþinginu fer fram formleg athöfn þar sem Jóhanni verður veitt heiðursdoktorsnafnbót og hefst hún kl. 16.00.
Öll eru hjartanlega velkomin til þess að sækja málþingið og athöfnina!
UMMÆLI