Jól á Akureyri í skugga mænuveiki 1948

Jól á Akureyri í skugga mænuveiki 1948

Mænuveiki er smitsjúkdómur af völdum veirusýkingar. Á Vísindavefnum segir um sjúkdóminn að smit berist oftast manna á milli með saurgerlum sem komist í snertingu við munn og meltingarveg, til dæmis gegnum mengað vatn. Einkenni séu í sumum tilfellum væg en ef veiran berist í blóðrás verði einkennin alvarlegri. Berist veiran í miðtaugakerfið geti hún valdið lömun og jafnvel dauða. Bóluefni kom fram árið 1955 og í kjölfarið var veirunni nánast útrýmt í heiminum.

Mænuveiki herjaði á Akureyringa og aðra, seinni hluta árs 1948. Samkomubann var sett á í bænum og nágrannasveitarfélögum um haustið. Heilbrigðisyfirvöld báru von í brjósti um að faraldurinn yrði í rénun í aðdraganda jóla. Þeim varð ekki að ósk sinni svo ráðstafanir voru gerðar til að koma í veg fyrir að skólafólk á Akureyri færi úr bænum í jólafríinu. Eftirfarandi frétt birtist í Degi þann 22. desember.

Heilbrigðisstjórnin gerir ráðstafanir til, að skólafólk úr skólum hér í bænum fari ekki heim til sín í jólaleyfinu.

Því miður fer því fjarri, að hægt sé að segja, að mænuveikifaraldur sá, er þjáð hefir bæjarmenn hér að undanförnu, sé um garð genginn. Síðustu dagana hafa enn bætzt við allmörg ný tilfelli, en hitt er þó næstum ennþá kvíðvænlegra, að sóttin hefir elnað ýmsum þeim, er tekið höfðu hana fyrir alllöngu síðan, þannig, að sumir þeirra liggja nú fárveikir, en aðrir hafa hlotið alvarlegar lamanir. Er ástandið á ýmsum heimilum í bænum harla bágt af þessum sökum, og sums staðar jafnvel þannig, að full vandræði steðja að, þar sem þess munu dæmi, að allt fullorðið heimafólk er frá verkum af völdum veikinnar. Er hætt við, að jólin verði óvenju dapurleg að þessu sinni á þeim mörgu heimilum, sem erfiðleika hafa hlotið af völdum vágests þessa, og raunar fullvíst, að skuggi hans muni hvíla eins og mara á öllum jólafagnaði hér í bænum í þetta sinn.

Um síðustu helgi gerði héraðslæknir hér, í samráði við landlækni, ráðstafanir til þess að skólafólk utan af landi, sem dvelst hér við nám í bæjarskólum í vetur, fari ekki heim til sín í jólaleyfinu. Er það auðvitað aðeins sjálfsögð varúðarráðstöfun, þótt hins vegar séu — því miður — litlar líkur til þess, að hún komi að verulegu haldi að hefta útbreiðslu veikinnar, m. a. sökum þess, að aðrar samgöngur og mannaferðir eru óhindraðar, og auk þess mun mænuveikin þegar vera komin allvíða út um sveitirnar, svo sem í Reykjaskóla í Hrútafirði, í Skagafjörð og víðar. Samkomubann hefir þegar verið sett í Skagafjarðarsýslu vegna faraldurs þessa, en samgöngubanninu við Svarfdælalæknishérað hefir nú nýskeð verið aflétt.

Heimild: Grenndargralið

Sambíó

UMMÆLI