Jólaaðstoðin þakkar stuðning og útvíkkar samstarfið

Jólaaðstoðin þakkar stuðning og útvíkkar samstarfið

Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, Hjálpræðisherinn á Akureyri, Rauði krossinn við Eyjafjörð og Hjálparstarf kirkjunnar hafa frá árinu 2012 haft samstarf um jólaaðstoð á Eyjafjarðarsvæðinu. Samstarfið hefur verið farsælt og nú hefur verið ákveðið að útvíkka það. Auk jólaaðstoðar hafa samtökin nú samstarf á ársgrundvelli um stuðning við efnaminni fjölskyldur og einstaklinga á Eyjafjarðarsvæðinu svo söfnunarfé og framlög til málaflokksins nýtist sem best. Nafn samstarfsins breytist því og er nú Velferðarsjóður á Eyjafjarðarsvæðinu. Skrifað hefur verið undir samstarfssamning til þriggja ára.

Eins og búast mátti við fjölgaði umsóknum um aðstoð töluvert síðastliðið ár og voru umsóknir í heildina um 400 talsins. Þetta er mesti fjöldi umsókna sem borist hefur síðan samstarfið hófst. Þrátt fyrir mikla fjölgun á milli ára kom sjóður jólaaðstoðarinnar vel út eftir árið 2020. Stuðningur frá fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum hefur aldrei verið meiri og því var hægt að styðja veglega við þau heimili sem þurftu á að halda. Í desember keypti sjóðurinn inneignarkort í matvöruverslanir fyrir 15,75 milljónir króna en ásamt kortunum úthlutaði sjóðurinn matvöru, gjafabréfum frá styrktaraðilum, inneignarkortum í verslun Rauða krossins, vörum úr verslun Hertex og jólagjöfum handa börnum.

Stjórn Velferðarsjóðs á Eyjafjarðarsvæðinu vill koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem lögðu starfinu lið. Án þessa mikla velvilja í samfélaginu væri ekki hægt að styrkja efnaminni heimili á svæðinu með þeim hætti sem nú er gert. Ykkar stuðningur er ómetanlegur.

UMMÆLI

Sambíó