Píeta

Jólaandinn

Jólaandinn

Elín Ósk Arnarsdóttir skrifar:

Nú er desembermánuður genginn í garð og margir farnir að huga að komandi jólahátíð. Vissulega verða jólin með öðru sniði í ár þökk sé elsku kórónuveirunni en við munum samt sem áður geta gert okkur dagamun. Hefðir eru stór hluti af jólunum fyrir marga og þó að við getum ekki heiðrað allar hefðirnar þetta árið eru margar sem við getum haldið í. Eins og til dæmis jólagjafahefðin. 

Það er þessi fallega og hlýja hefð sem felur í sér að eyða tíma, orku og pening. Útvega gjöf og gefa þeim sem standa manni nærri. Með þeim hætti er hægt að sýna væntumþykju og að við séum að hugsa til viðkomandi. Eins gaman og það er að fá fallega gjöf þá eru eflaust margir sem taka undir það að enn skemmtilegra er að gefa fallega gjöf. Sælla er að gefa en þiggja sagði einhver mjög vitur. Það er svo yndislegt að fá tækifæri til að sýna væntumþykju sína og er alveg ótrúlega gefandi að gefa gjafir. En þessi hefð okkar, sem börnin elska, er ekki eintóm hamingja. Henni fylgja því miður gallar. 

Það er þessi tímapressa. Þú ert með hóp einstaklinga sem þig langar að gefa jólagjafir og þá er komin pressa að útvega gjafirnar fyrir alla á réttum tíma. Allt þarf að vera pakkað og klárt á Aðfangadagskvöld. Þetta leiðir til þess að margir lenda í vandræðum, þeir finna ekki réttu gjöfina fyrir viðkomandi og enda því með að kaupa bara eitthvað. Af því að engin gjöf undir jólatrénu kemur ekki til greina. Það er því í alltof mörgum tilvikum, þó að hugsunin sé falleg á bakvið gjöfina, að gjafir nýtast illa. Þetta eru yfirleitt hlutir sem viðkomandi vantar ekki, þarfnast ekki og langar ef til vill ekki í. Gjöfin endar þá uppi í skáp þar sem hún safnar ryki þar til næsta heimilistiltekt er gerð. Þá endar hún kannski í Rauða Krossinum eða Góða hirðinum. Vissulega eru dæmi um það að gjafir hitta í mark. Þá eru það hlutir sem viðkomandi langaði nákvæmlega í eða sárvantaði. Í þessum tilvikum nýtast gjafirnar vel og allir græða. Það mætti bara vera svo miklu oftar sem þetta gerist. 

Af hverju er það vandamál að einstaklingar kaupa hluti til að gleðja aðra þó að hlutirnir séu kannski ekki notaðir? Við stöndum jú frammi fyrir stórum og alvarlegum vandamálum á sviði umhverfismála og neysluhyggja er þar stór þáttur. Allir hlutir eru framleiddir úr einhverju hráefni og hráefnin eru fengin frá auðlindum jarðar. Við erum farin að framleiða svo mikið af hlutum, auðvitað til að græða meiri pening og erum því farin að ganga á birgðir jarðarinnar. Og svona getur þetta ekki gengið áfram. Við getum ekki haldið áfram að lifa eins og við höfum verið að gera. Við þurfum að gera breytingar. Og ein breyting er að endurskoða jólagjafahefðina. 

Margir hafa reynt að gera gjafahefðir umhverfisvænni með því að spyrja viðkomandi nákvæmlega hvað honum eða henni langar í. Gefa pening. Gefa upplifun eða gjafakort. Velja gjafir sem eru vottaðar umhverfisvænar og lífrænar. Þetta eru allt frábærar aðgerðir og hef ég sjálf reynt að tileinka mér þessa sýn. En upp á síðkastið finnst mér þörf til að gera róttækari breytingar. Mig langar vissulega að halda áfram að gefa fólki gjafir en þá á mínum forsendum. Þegar ég sé eitthvað sem þeim vantar eða langar í. Þegar tíminn er réttur. Ekki af því að dagatalið segir mér að gefa viðkomandi gjöf. Auðvitað eru gjafir hluti af jólunum fyrir marga og þess vegna hvet ég alla til að gefa hvort öðru það dýrmætasta sem við getum gefið hvort öðru. Tíma og samveru. Látum jólin frekar snúast um dýrmætar stundir saman í staðinn fyrir hluti sem munu aldrei færa okkur hamingju. 

*The best things in life aren’t things*

UMMÆLI