Jólabakstur BB Baksturs

Jólabakstur BB Baksturs

Akureyringarnir Bjarni og Birgir hófu nýverið að auglýsa jólabakstur á samfélagsmiðlum, en þeir félagar hafa starfað víðsvegar í veitingageiranum, bæði á Akureyri og á höfuðborgarsvæðinu. Við tókum þá félaga tali og fengum að fræðast meira um starfsemi þeirra, BB Bakstur.

„Okkur hefur fundist vanta upp á úrval í verslunum“

Strákana hefur lengi langað að hefja þessa starfsemi en segjast ekki hafa fundið tíma fyrr en nú. Kveikjan að þessum bakstri var sú að þeir hafa báðir einstaklega gaman af því að baka og finnst úrvalið af smákökum í verslunum ábótavant.
„Við vildum reyna að bjóða upp á okkar uppáhaldskökur, sem við höfum bakað fyrir okkur sjálfa í gegnum tíðina,“ segja þeir.

Smákökurnar sem þeir baka fyrir jólin eru meðal annars daim- og súkkulaðibitakökur, daim- og lakkrístoppar, döðlugott, sörur og mömmukossar. Þetta eru kökur sem þeir eru báðir aldir upp við að aðstoða við að baka á heimilum sínum og hafa haldið áfram að gera síðan þeir fluttu að heiman.

Strákarnir segja að í nútímasamfélagi sé fólk oft upptekið og erfitt að finna tíma til að baka, sérstaklega um jólin þegar allir hafa í nógu að snúast. Að þeirra sögn vilja þeir koma þar sterkir inn og bjarga málunum fyrir þá sem hafa ekki tíma til baksturs.
„Svo eru margir sem kunna bara alls ekkert að baka, en vilja samt geta borðað indælis smákökur,“ bæta þeir við.

Ætlið þið að halda áfram að baka eftir jólin?

„Stutta svarið er já, en við höfum ekki tekið ákvörðun um í hvaða magni það yrði. Við erum nú þegar farnir að hugsa um hvað meira við gætum gert,“ segja þeir.Að lokum spurðum við strákana hvernig þeir tækju jólakaffið sitt.
„Venjulegur cappuccino er mitt uppáhalds, en svo er uppáhellt með mjólk líka klassískt,“ segir Birgir.
Bjarni bætir við: „Sama og hjá honum Birgi, nema ég set smá karamellu út í minn bolla.“

Fyrir frekari upplýsingar og pantanir – Facebook og Instagram

VG

UMMÆLI

Sambíó