Jólasveinn með krukku

Jólasveinn með krukku

Akureyringurinn María Dís Ólafsdóttir prjónaði sitt eigið jólaskraut fyrir síðustu jól og vill deila með sér uppskrift af jólasveinum í krukku sem eru bæði tilvalið jólaskraut sem og leynihólf fyrir góðgæri yfir hátíðirnar.

Það eru sveinar út um allt. En þeir innihalda ekki allir gjafir…

Tvöfaldur plötulopi á prjóna nr. 4. Það þarf u.þ.b. 25 g í húfu, 25 g í búk með vettlingum og um 10 g í skegg. Krukkan er 29 cm í ummál og 11.5 cm á hæð (frá ORA). 

Húfa:
Fitjið upp 60 lykkjur og prjónið slétt í hring, 10 umferðir. Hefjið þá úrtöku á tveimur stöðum með jöfnu millibili. (Úrtaka: Prjónið 2 lykkjur saman, takið eina lykkju óprjónaða, prjónið eina lykkju og steypið þeirri óprjónuðu yfir). Gerið úrtöku í annarri hverri umferð þar til lykkjum hefur fækkað niður í 48 talsins. Gerið eftir það úrtöku í þriðju hverri umferð þar til 4 lykkjur eru eftir. Klippið þá á endann, dragið í gegnum lykkjurnar sem eftir eru og gangið frá endum. 

Búkur:
Fitjið upp 40 lykkjur og prjónið slétt í hring eina umferð. Prjónið gata hring, þ.e. 2 lykkjur saman og slá upp á prjóninn út eina umferð. Prjónið 10 umferðir slétt. Prjónið þá 5 lykkjur upp á auka band (eins og þumall), prjónið 15 lykkjur og prjónið næstu 5 lykkjur á auka band. Klárið umferðina og prjónið 18 umferðir til viðbótar. Prjónið úrtöku með sama sniði og í húfunni nema nú er úrtaka gerð á fjórum stöðum með jöfnu millibili og í hverri umferð. Þægilegt er að hafa lykkjurnar á 4 prjónum og 10 lykkjur á hverjum prjóni. Þegar 8 lykkjur eru eftir er lopinn klipptur og dregin í gegnum lykkjurnar. Gangið frá endum.

Hendur:
Prjónaðar eins og þumlar á vettlingum. Takið upp 12 lykkjur af öðru auka bandinu og prjónið slétt í hring 8 umferðir. Skiptið um lit til að gera vettling á jólasveininn. Prjónið 6 umferðir. Prjónið eina umferð þar sem 2 og 2 lykkjur eru prjónaðar saman. Klippið lopann og dragið í gegnum lykkjurnar 6. Gerið hina hendina eins og gangið frá öllum endum. 

Gott er að skola/þvo búkinn og húfuna áður en skeggið og nefið er sett á. 

Búið til lítinn hnykil sem nef og saumið á búkinn. Gott er að stinga endanum nokkrum sinnum í gegnum hnykilinn með nálinni svo hann haldi forminu betur. Festið skegg á eins og kögur, snyrtið svo til og greiðið varlega. 

Setjið annað hvort band eða teygju í gegnum götin efst á búknum og strekkið vel utan um krukkuna að ofan verðu svo búkurinn haldist uppi. Fyllið svo krukkuna af nammi og setjið húfuna á áður en gestirnir koma og klára allt nammið. 

María Dís Ólafsdóttir, stofnandi Nanna Lín

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó