beint flug til Færeyja

Jólavertíðin hafin hjá Plastiðjunni Bjargi

Jólavertíðin hafin hjá Plastiðjunni Bjargi

Jólavertíðin er í fullum gangi hjá Plastiðjunni Bjargi – Iðjulundi, PBI, sem er sjálfsþjálfunar- og starfsendurhæfingar vinnustaður. Fjallað er um jólavertíð PBI á vef Akureyrarbæjar.

„Nú erum við á kafi í kertagerðinni, að útbúa bæði útikerti og veislukerti,“ segir Svanborg Bobba Guðgeirsdóttir, forstöðumaður PBI, á vef bæjarins.

Útikertin eru framleidd úr endurunnu vaxi, sem PBI fær aðallega frá Sorpu. „Sorpa tekur vaxið frá, grófflokkar það og sendir okkur. Svo erum við með fólk út um allt land sem hugsar til okkar. Við tökum við öllu, nema sprittkertum,“ segir Svanborg Bobba og bætir við að útikertin seljist alltaf upp. „Við seljum um 35 þúsund dósir af útikertum á ári, sem eru allt gamlir kertaafgangar. Enginn á landinu framleiðir jafn mikið af endurunnu vaxi og við. Hér hefur skapast mikil þekking, enda erum við með snillinga við dýfingavélina. Þetta er flókin vinna þar sem hitastig og aðrir þættir skipta miklu máli.“

Flest verkefni PBI eru umhverfisvæn. Auk kertanna framleiða þau vélatuskur úr gömlu efni, rafmagnsdósir og annað efni til raflagna úr plastperlum, taupoka, mjólkursíur og búfjármerki. „Í upphafi voru þetta þau verkefni sem okkur buðust en svo varð þjóðin grænni og við ákváðum að halda í þessa stefnu. Við erum ávallt með mörg verkefni í gangi, því vissulega getur enginn allt, þótt öll verkefnin séu mikilvæg.“

Myndir má finna á vef Akureyrarbæjar með því að smella hér.

VG

UMMÆLI

Sambíó