Blakdeild KA barst í dag liðsstyrkur fyrir komandi vetur en Jóna Margrét Arnarsdóttir er mætt aftur heim eftir að hafa leikið tvö undanfarin tímabil með liði Sant Joan d’Alacant á Spáni.
Jóna er 22 ára, öflugur uppspilari uppalin hjá KA, þar sem hún hóf feril sinn aðeins 12 ára. Hún varð lykilmaður 16 ára og leiddi liðið til Íslands-, bikar- og deildarmeistaratitla árin 2022 og 2023. Jóna var valin íþróttakona KA og besti leikmaður liðsins 2022-2023. Undanfarin tvö ár hefur hún verið í lykilhlutverki hjá Sant Joan d’Alacant á Spáni og er fastamaður í íslenska landsliðinu.
„Það er gríðarlega sterkt að fá Jónu aftur heim en KA liðið er handhafi allra stærstu titlanna og klárt að við ætlum okkur áfram stóra hluti og er heimkoma Jónu stór þáttur í áframhaldandi velgengni. Ekki nóg með að vera afar öflugur leikmaður að þá er hún öflugur félagsmaður sem þekkir félagið okkar í bak og fyrir en auk þess að leika með KA í vetur kemur hún inn sem verkefnastjóri blakdeildar,“ segir á vef KA.
UMMÆLI