KA úr leik eftir tap gegn ÍR í framlengingu

Elfar Árni Aðalsteinsson gerði eina mark KA

KA-menn eru úr leik í Borgunarbikarnum í fótbolta eftir tap í framlengdum leik gegn Inkasso-deildarliði ÍR á KA-velli í kvöld. Lokatölur 1-3 fyrir Breiðhyltinga.

KA hefur verið heitasta lið landsins í upphafi Íslandsmótsins og staðið sig frábærlega sem nýliðar í Pepsi-deildinni á meðan ÍR-ingar, sem eru nýliðar í Inkasso-deildinni, hafa tapað tveim fyrstu leikjum sínum þar.

Það voru engu að síður ÍR-ingar sem komust yfir strax á sjöundu mínútu þegar Jón Gísli Ström kom ÍR yfir. Elfar Árni Aðalsteinsson jafnaði metin í upphafi síðari hálfleiks og Hallgrímur Mar Steingrímsson fékk kjörið tækifæri til að koma KA í forystu skömmu síðar en Steinar Örn Gunnarsson gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnu Hallgríms. Staðan að loknum venjulegum leiktíma 1-1 og því þurfti að framlengja leikinn.

Þar reyndust ÍR-ingar sterkari aðilinn og unnu að lokum 1-3 sigur. KA því úr leik í Borgunarbikarnum þetta árið og verður ekkert Akureyrarlið í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit.

KA 1 – 3 ÍR

0-1 Jón Gísli Ström (‘7)
1-1 Elfar Árni Aðalsteinsson (’51)
1-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson (’64, misnotað víti)
1-2 Andri Jónasson (’97)
1-3 Jón Arnar Barðdal (‘111)

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó