Í tilefni af Hinsegin hátíðinni á Norðurlandi eystra mun Kjallarakabarettinn sem tryllt hefur lýðinn undanfarin ár í Þjóðleikhúskjallaranum kíkja í sumarsólina norður. Fremst í flokki eru Gógó Starr, akureyska dragstirnið og Margrét Maack, burleskdrottning Íslands. Þau taka með sér fagursköpuðu húllamærina Bobbie Michelle og sirkusfolann Nonna. Alla leið frá New York kemur svo kabarettdívan Daphne Always…..en hvað nákvæmlega felst í kabarettsýningu?
„Kabarettsýning er ótrúlegt púsluspil skemmtiatriða sem stríða og kitla. Mannslíkaminn er yfirleitt í fyrirrúmi, ódýr húmor, glens, tvíræðni og sitthvað fleira. Þetta er mitt á milli skemmtiatriða sem þú sæir á þorrablóti, á Moulin Rouge og í mjög skrýtnum kjallaraklúbbi í Berlín,“ segir Margrét Maack.
Hópurinn mun stíga á stokk annað kvöld á LYST, síðan í Hrísey á laugardeginum, þar sem verður bæði fjölskyldusýning og síðar um kvöldið kabarett. Sýningin verður líkt og smakkseðill af því sem þau gera í Þjóðleikhúskjallaranum – mikið burlesk, en líka drag, fullorðinssirkus og hreinræktaður kabarett.
„Við erum núna að setja Íslandsmet í að pakka niður leikmunum í fáránlegri stærð í mjög litla bíla og ber þar hæst kökuna sem Gógó ætlar að stökkva upp úr.“
Markhópurinn er fyrst og fremst fullorðið fólk og að sögn Margrétar er sýningin stranglega bönnuð börnum (nema fjölskyldusýningin í Hrísey). „Við hentum ekki þeim sem óttast undur mannslíkamans, en fólk sem hefur gaman að öllum þeim ævintýrum sem mannslíkaminn býður upp á hafa gaman að þessu. Kabarettinn er í eðli sínu skjól mikils hinseginleika og er rannsókn á kyntjáningu í sinni fjölbreyttustu mynd – en það er allt of gáfað að segja það. Þetta er bara metnaðarfullur fíflagangur,“ segir Margrét



Akureyringurinn Gógó Starr verður í farabroddi, sem er fyrsti Íslendingurinn til að hafa fulla atvinnu af dragi. Gógó sigraði Dragkeppni Íslands árið 2014 var stofnmeðlimur í Dragsúgi sem breytti reykvíska draglandslaginu svo um munar. Í dag er Gógó vinsæll skemmtikraftur sem kemur bæði fram í hefðbundnum fyrirtækjaveislum, kennir tottnámskeið í Blush og atriðasköpun og dragförðun, og framleiðir og kemur fram á sýningum á skemmtistöðum. Gógó kemur einnig reglulega fram erlendis, og ásamt þeim öllum sem erum í sýningunni komum þau síðast fram síðastliðinn september á Club Cumming í New York, sem er í eigu leikarans Alan Cumming.
„En skemmtilegast er að skemmta á heimavelli og eigum við stóran hóp fólks sem kemur reglulega á sýningar hjá okkur. Íslenska jaðarsviðslistasenan er mjög stór og eru um fjörutíu manns sem skiptast á að koma fram á sýningunum okkar yfir vetrartímann,“ segir Margrét að lokum.
Þegar greinin er rituð voru enn nokkrir miðar eftir á sýninguna og hægt að næla sér í þá síðustu á www.lyst.is ásamt því verður kabarettinn á Hinsegin dögum í Hrísey laugardaginn 21. júní.
UMMÆLI