Kolröng nálgun á styttingu vinnuvikunnar

Kolröng nálgun á styttingu vinnuvikunnar

Sóley Kjerúlf Svansdóttir ,sérkennslustjóri hjá Leikskólanum Kiðagil skrifar:

Ég tel að foreldrasamfélagið sé grunlaust og hafi ekki áttað sig á því hvað er að gerast í leikskólum og ég ætla að tala út frá leikskólum á Akureyri. Ef foreldrar hafa áttað sig, af hverju eru ekki háværari raddir og hvað eru foreldraráðin að gera?

„Þetta er líka verkefni sveitarfélaganna. Ef þetta gengur ekki og ef koma upp hnökrar þá þurfa aðilar að finna leiðir til að leysa þá hnökra. Það er ekki hægt að leggja það á skólana eina að finna leiðir að því að leysa úr þessum hnútum. Sveitarfélögin verða að koma að því líka.“ (Úr grein á Vísi.is.)

Akureyrarbær hefur ákveðið að innan leikskólana verði stytting vinnuvikunnar að vera 65 mínútur sem taka verður innan vinnuvikunnar. Það er ekki í boði að safna styttingunni upp á milli vikna eins og aðrar stéttir fá tækifæri til. Af hverju er sagt NEI við starfsmenn leikskóla þegar starfsmenn annarra stofnanna innan sveitarfélagsins fá JÁ?

Við vinnum með lifandi börn, börnin ykkar. Þau eru ekki verkefni sem við getum lagt til hliðar til að taka styttingu vinnuvikunnar. Það hlýtur að vera augljóst að í leikskólum er ekki hægt að framkvæma styttingu vinnuvikunnar án þess að það hafi í för með sér auka kostnað.

Nú þegar er mikið í umræðunni að það séu of mörg börn á hvern starfsmann og hvað gerist þegar á hverjum degi einhver starfsmaður fer 65 mínútum fyrr heim? Enn færri starfsmenn. Það er ekki að koma inn afleysing fyrir þann starfsmann sem fer fyrr heim. Eru foreldrar búnir að átta sig á því? Þetta er augljóst, þetta er þjónustuskerðing og öryggisskerðing fyrir börnin ykkar og þetta er meira álag á þá starfsmenn sem eftir verða.

Hættum að skafa ofan af því, hættum að samþykkja gylliboð og láta traðka á okkur, þetta er staðreynd.Út á við var talað skýrt að stytting vinnuvikunnar ætti ekki að hafa neina þjónustuskerðingu í för með sér. Vissulega er þetta ekki þjónustuskerðing fyrir foreldra, það er ekki verið að loka fyrr eða krefjast til þess að fólk sæki börnin sín fyrr. Þar með ljúka sveitarfélögin máli sínu. En hversu mikil þjónustuskerðing er þetta fyrir börnin? Tökum dæmi.

Við erum stödd á 26 barna deild með 4-5 ára börnum. Þar starfa 3 starfsmenn og klukkan er 15:10. Tvö börn eru nú þegar farin heim og eitt var veikt heima. Einn starfsmaður er farinn heim því hann á vinnustyttingu. Það kemur móðir að sækja, hún þarf að fá auka föt send heim þar sem var blaut útivera fyrr um daginn og smá upplýsingar um líðan barnsins yfir daginn. Einn starfsmaður tekur aukafötin til, spjallar við móðurina og þar sem barnið átti erfiðan dag tók samtalið smá tíma. Á meðan er einn starfsmaður eftir inn á deild með 22 börn (með fullri mætingu þá væri hann einn með 25 börn). Af þessum 22 börnum fara tvö að rífast um legobílinn og annað barnið lemur hitt, legokubburinn fer í augað og það fer að blæða. Starfsmaðurinn þarf að leysa deiluna, leiðbeina barninu sem lamdi frá sér, hugga það sem er grátandi og fara fram að sækja plástur.

Hver á að sjá hin 20 börnin?Hvað ef þetta væri 20 barna deild og þar með bara 2 starfsmenn? Hver átti að grípa inn í og hugga barnið? Hvað ef það kemur annað foreldri að sækja og vill líka fá upplýsingar um barnið sitt? Hvað ef það þarf að fylgja einu barni á klósettið? Hvað ef einn starfsmaður er veikur, hvað ef nokkrir starfsmenn eru veikir og ekki til meiri afleysing, hvað ef afleysingin á sjálf vinnustyttingu?

Það eru ansi margar útgáfur af þessu dæmi og ansi mörg tilfelli af “hvað ef” sem hægt er að týna til, enda eru þessi dæmi daglegt brauð innan leikskólans. Starfsmennirnir eru í þessu dæmi að hugsa um um það bil 9 börn á mann og það gefur auga leið að þau krefjast mikillar athygli og umönnunar, líka eftir kl. 14:55. Bara á meðan ég skrifaði þennan pistil birtist grein um að barn hafi hryggjaliðabrotnað við að detta úr kastala. Stutt er frá því að slys átti sér stað við lokunarvakt á leikskóla í nágrenninu. Börn hafa strokið út um hlið sem starfsmenn hafa ekki undan að loka og fylgjast með.

Dæmin eru endalaus og með færri starfsmönnum er minna eftirlit og þar með er öryggi barna fórnað. Hver á að finna út úr því? Já jú, leikskólarnir sjálfir því ekki ætlar sveitarfélagið að gera það.

Tökum annað dæmi, við erum með sömu deild, sami starfsmannafjöldi og sami barnafjöldi en nú er samkvæmt starfssamning starfsmaðurinn sem á vinnustyttingu á lokunarvakt. Hver á að loka deildinni/leikskólanum? Hinir starfsmennirnir vinna bara til kl. 16, en ekki 16:15 eða 16:30. Hver á að vera með börnin þegar vinnudagurinn hjá þeim 2 starfsmönnum er búinn? Þeir fara heim kl. 16 og eftir eru 9 börn með vistunartíma til 16:15 og eru ekki farin heim. Vinnustyttingin á ekki að kosta neitt svo ekki má borga þeim yfirvinnu til að vera lengur í vinnunni og loka fyrir þann sem á vinnustyttingu. Ekki má borga afleysingu til að koma í staðinn.

Kannski eiga þeir sjálfir börn hjá dagmömmu eða á leikskóla og þurfa að sækja fyrir 16:15 annarsstaðar og eiga því ekki kost á því að vera lengur, þó það væri borgað fyrir það eða vaktarrúllunni/starfssamningnum breytt. Hver á að finna út úr því? Já jú, leikskólar eiga að finna út úr þessu sjálfir og án alls kostnaðar.

Tökum þriðja dæmið. Við erum enn á sömu deild og áður, sami barnfjöldi en nú bætum við einum starfsmanni við þar sem eitt barnið er með 100% stuðning. Sérhæfður starfsmaður sem ráðinn er inn til að vera með barnið allann daginn. Hann á vinnustyttingu og það kemur enginn í hans stað.

Hvað er þetta annað en þjónustuskerðing fyrir sérkennslubarnið? Hver á að finna út úr því?Hvar eru hagsmunaðaraðilar barna? Hvar eru raddir foreldra? Af hverju er enginn að standa vörð fyrir því að sveitarfélög brjóti svona á rétti barna? Af hverju eiga leikskólastarfsmenn að hlaupa hraðar og undir meira álagi á meðan aðrar starfstéttir fá tækifæri til að safna upp og nýta vinnustyttinguna betur? Af hverju er ekki undanþága fyrir leikskóla að ráða inn afleysingu til að mæta vinnustyttingunni þar sem börn eru ekki verkefni sem við getum lagt til hliðar?Mun vinnustyttingin skila sér í styttri viðveru barna og þar með minnka álag á starfsmenn?

Ég fagna styttingu vinnuvikunnar og þeirri samfélagslegu breytingu sem getur orðið í kjölfarið. Við vinnum rosalega mikið, hraðinn á samfélaginu er gífurlegur, vinnutími barna er einn sá lengsti sem þekkist og allt þetta bitnar á samverustundum fjölskyldunnar. Ég fagna þeim jákvæðu breytingum sem sést hafa í öðrum starfsstéttum. Ég vil bara benda á að aðferðin og nálgunin er kolröng. Það er ekki hægt að setja leikskóla undir sama hatt og aðra.

Sveitarfélög þurfa að taka sína ábyrgð á samningnum og gefa undanþágu fyrir leikskóla. Ég vil bjóða starfsmanninum sem situr fast á bak við excel skjalið, sem getur slökkt á tölvunni og geymt blaðabúnkann eða tölvupóstinn fram á næsta dag til að taka sína vinnustyttingu, að mæta einn dag í vinnu á leikskóla. Eða hey, væri ekki frábært að prófa taka heila vinnuviku, hún má líka vera 36 klukkustundir en þá fær hann engan kaffitíma og þarf að taka fleiri börn á sig og vinna undir meira álagi þegar samstarfsfélagar fara heim í hádeginu. En uppfylla jafnframt allar þær uppeldiskröfur sem fylgir dýrmætasta „verkefni“ sem unnið er með.

UMMÆLI