Konan sem gleymdi að kaupa teljós

Konan sem gleymdi að kaupa teljós

,,Það er til lítils að skrifa þessa pistla ef þú getur aldrei farið eftir þeim“-.

Þessi orð voru sögð af eiginmanni mínum með svolítilli örvæntingu í röddinni núna á aðfangadag. Dagana á undan hafði ég farið nokkuð hressilega fram úr minni oft naumt skömmtuðu orku og bar þess nokkur merki. Hætt að taka pásur, hætt að muna eftir tveggja mínúta öndunaræfingunum og svefninn orðinn strembinn. Við vorum nýkomin úr löngu og erfiðu ferðalagi sem þrátt fyrir Covid gekk vel og rólega fyrir sig. Þegar við hinsvegar lentum á Íslandi skullu á okkur jólaauglýsingar, jólaskraut og jólavæntingar. Dásamlegur tími aðventan, en líka tíminn þegar formæður mínar í langri röð banka upp á og minna mig á hvað almennilegar húsmæður gera fyrir jólin. Og þær sammælast allar um það að minna mig á með samfélagsmiðlum, auglýsingum og minningum um fyrri jól.

Allar fyrirætlanir um að láta ekki streituna ná tökum á mér fuku svolítið út um gluggann í þessari orrahríð og þrátt fyrir að fá hjálp við jólaþrif og hafa sleppt því að baka þá tókst mér að fara á streitustigið sem einkennist af því að athyglin, minnið og tilfinningarnar, allt þetta verður svolítið út um allt. Streita sem orsakaðist sem sé af því að gera EKKI fyrir jólin.

Já maður er skrýtin skrúfa. Að vera meistari í samviskubiti, er samt ekkert sérstaklega þægilegur titill og þó erum við margar sem tökum þátt í keppninni.

Jæja allt slapp þetta nú til þar til á Aðfangadag. Þá kom maðurinn minn að mér þar sem ég sat með tárin í augunum, örvæntingin uppmáluð. Og ástæðan? Jú ég var búin að týna einni jólagjöf, það voru smákökur á diski sem keyptar voru í búð (já ég legg ekki meira á ykkur) og það sem var verst,- ég gleymdi að kaupa teljós!! Já ég meina hvaða kona með sjálfsvirðingu gleymdir blessuðum jólaljósunum? Bakar ekki sjálf? Týnir gjöfunum?

Þegar ég var í háskólanámi, þá komin í eigin húsnæði og með ungt barn, lauk prófum yfirleitt rétt fyrir jól. Þá gerði ég ekki mikið en hafði þessa fínu ,,afsökun“, meira að segja ég sjálf gat ekki búið til samviskubit yfir því að taka prófin fram yfir smákökurnar.

Núna þarf ég hinsvegar að taka tillit til eigin vanmáttar, heilsu og þverrandi orku. Þar skortir mig algjörlega tillitssemi til sjálfrar mín, svona að minnsta kosti þegar tilfinningarnar taka af mér ráðin.

Friðrik hefur bæði rétt og rangt fyrir sér hvað varðar pistlana mína. Þeir eru ekki skrifaðir svo ég sjálf geti bætt úr því sem betur má fara í eigin fari,- frekar til að þess að deila þessu  mannlega, þessu sem gerir okkur öll svo dásamlega ófullkomin og vitlaus og viðkvæm.

Hinsvegar væri ákaflega gott ef ég gæti oftar iðkað það sem ég veit að er gott fyrir mig. Ég veit fullvel að ég þarf í fyrsta lagi ekki að vera neitt sérstaklega fullkomin húsmóðir og að það er nákvæmlega ENGINN sem gerir kröfur á mig hvað það varðar. Maðurinn minn er fullkomlega laus við jólakröfur og jólastress, það er allt innan úr mér sjálfri. Og svo er það stóra málið,- það er bara allt í lagi þótt að manni líði ekkert alltaf sérstaklega vel heldur. Samviskubitið mitt er sjálfsagt löngu orðið hluti af mér og kannski er bara best að samþykkja það, hía svolítið á það og draga úr því tennurnar en hætta að láta það stjórna því hvað ég geri.

Sama dag og ég missti kúlið yfir gleymdum teljósum, lentum við svo í sóttkví og höfum unað tvö í okkar litlu jólaveröld síðan. Enginn er með samviskubit og formæðurnar steinþegja aldrei þessu vant. Jólagjöfin fannst (í röngu húsi), við fengum hrúgur og helling af góðgæti í jólagjöf og teljósin sem maðurinn minn bjargaði fyrir horn liggja tilbúin í skúffunni.

Njótið stundanna.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó