Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis, KAON, fékk á dögunum góðan styrk frá árgangi 2008 sem útskrifaðist úr Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit vorið 2024. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook síðu Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.
„Hópurinn hafði staðið í fjáröflun árið á undan og lagt sig fram við að safna fyrir skólaferðalagi sínu eftir ýmsum leiðum, með það góðum árangri að eftir að hafa farið í ógleymanlegt skólaferðalag vorið 2024 átti hópurinn enn þá afgang af ferðasjóðnum,“ segir þar.
Hópurinn ákvað að láta afganginn renna til góðs málefnis og varð niðurstaðan sú að styrkja KAON um 250.000 krónur.
„Það er von og trú hópsins að styrkurinn hjálpi til við að styrkja og efla starfsemi félagsins enn frekar í heimabyggð og muni styðja við þá frábæru þjónustu sem félagið hefur veitt krabbameinsgreindum og aðstandendum þeirra, þar á meðal einstaklingum í þessum hóp,“ segir í tilkynningunni.
UMMÆLI