Kvíaból og eigendur Sel Hótel Mývatn hlutu verðlaunMyndir/Þingeyjarsveit

Kvíaból og eigendur Sel Hótel Mývatn hlutu verðlaun

Þingeyjarsveit veitti nýverið árleg umhverfis– og menningarverðlaun sín. Að þessu sinni voru það ábúendur á Kvíabóli í Köldukinn sem hlutu umhverfisverðlaun og eigendur Sel Hótel Mývatn sem fengu menningarverðlaunin.

Umhverfisverðlaun 2024 Ábúendur á Kvíabóli í Köldukinn, þau Haukur Marteinsson og Ingiríður Hauksdóttir, hlutu umhverfisverðlaun Þingeyjarsveitar árið 2024. Í umsögn með tilnefningunni segir: Kvíaból í Köldukinn „er eitt af snyrtilegustu bæjarstæðum í sveitarfélaginu. Allt slegið og snyrt reglulega, gengið vel um allt á hlaðinu ekkert rusl eða neitt því um líkt fjúkandi. Tún vel græn og hugsað vel um þau. Ábúendur eru nýbyrjaðir í skógrækt í brekkum fyrir ofan bæinn og verður þetta flottur skógur eftir nokkur ár. Hugsað er vel um byggingar á jörðinni.“

Menningarverðlaun 2025 Ásdís Erla Jóhannesdóttir og Yngvi Ragnar Kristjánsson, eigendur Sel Hótel Mývatn, hlutu menningarverðlaun Þingeyjarsveitar árið 2025. Þau eru verðlaunuð fyrir virka þátttöku í samfélaginu með fjölbreyttum menningarviðburðum og samkomum sem efla samfélagið. Sem dæmi má nefna jólasveinana í Dimmuborgum, Vordægur fyrir eldri borgara og framlag til íslenskrar bjórmenningar. Einnig eru þau mikilvægir bakhjarlar íþrótta-, menningar- og góðgerðastarfs.

UMMÆLI