Kvíði og höfnunJóhanna Ingólfsdóttir skrifar:

Kvíði og höfnun

Það að vera hræddur er svipuð tilfinning eins og vera hafnað. Því ef ég geri ekki eitthvað á þeim forsendum að það hræðir mig, þá er ég sjálfkrafa að hafna sjáfri mér.

Besti vinur minn í mörg ár var kvíði. Hann gerði það að verkum að ég þurfti ekki að gera neitt sem hræddi mig og þar af leiðandi þurfti aldrei að óttast það að vera hafnað. Kvíði kom til mín, ég hinsvegar nærði hann og hlúði að honum og gerði hann að besta vini mínum. Ég lifði í fullkomri sátt við þennan vin minn kvíða og hélt mig alveg frá öllum aðstæðum sem mögulega gerðu það að verkum að hann tók yfirhöndina. Hann átti það nefnilega til, þegar honum fannst við ekki nógu góð, nógu sjálfsörugg eða bara ekki eiga heima í einföldustu aðstæðum eins og í búðinni, þá tók hann yfirhöndina yfir mér og lét mér líða á þann hátt, að ég passaði mig betur að koma okkur ekki í slíkar aðstæður aftur. Við kvíði vorum orðin mjög náin þegar ég áttaði mig á að hann var ekki svo góður vinur, hann gerði líf mitt þannig að ég hafnaði sjálfri mér.

Höfnun var nefnilega versti óvinur minn. Ef ég rakst á höfnun þá leið mér mjög illa. Höfnun sá um að ég hafði enga trú á sjálfa mig, ég trúði ekki að ég væri nógu góð, ég trúði ekki að ég gæti gert nokkurn hlut rétt, ég trúði ekki að ég gæti gert eitthvað alveg sjálf, vegna þess að höfnun var búin að sannfæra mig um það. Kvíði vingaðist svo við mig til þess að vernda mig fyrir höfnun, eða það hélt ég allavega.
Kvíði sannfærði mig um það að höfnun væri óvinur minn og ég trúði honum. Kvíði sagði mér að það versta í heimi væri að vera hafnað og til þess að verða ekki hafnað þá þyrfti ég að vera fullkomin í öllu, í útliti, í málfari og hreinlega bara öllu sem ég gerði, smáu sem stóru. En því meira sem kvíði sannfærði mig um að ég þyrfti að vera fullkomin þeim mun erfiðara var að framkvæma einföldustu verk, því ég var á engan hátt fullkominn. Ég kenndi höfnun um þetta því jú, það var höfnun að kenna að ætlast til þess að ég væri fullkomin. Ég var mjög sátt með það að bara leyfa kvíða að stjórna því að ég væri bara heima og segði sem minnst. Kvíði var jú að passa mig fyrir því að hitta ekki höfnun, eða hvað?
Það var alls ekki fyrir svo löngu síðan að ég komst að því að kvíði og höfnun væru í raun og veru vinir, og alls ekki vinir mínir. Kvíði hafði allan tímann verið að vinna með höfnun gegn mér.

Það var erfitt verk að slíta mig frá vini mínum kvíða, því þó að hann væri slæmur félagskapur fyrir mig þá var það hann sem hafði alltaf verið með mér, alltaf staðið með mér í að passa að ég segði nú enga vitleysu eða hreinlega bara ekki neitt, passa að ég gerði ekki eitthvað sem ég kynni ekki eða hreinlega bara gera ekkert, hann passaði mig svo vel fyrir höfnun þannig að hvernig í ósköpunum átti ég að komast af án kvíða?
Ég setti kvíða og höfnun niður saman, ef ég get horft í augun á höfnun og sagt að ég er ekki hrædd við þig þá þarf ég ekki kvíða til að vernda mig fyrir þér. En hvernig átti ég að fara að því að hætta að vera hrædd við höfnun? Eitt skref í einu. Fyrst vingaðist ég við aðra tilfinngu sem heitir Nóg. Í upphafi hét hún Nóg af því að ég var búin að fá alveg nóg af Kvíða og Höfnun, en svo áttaði ég mig á að vinkona mín Nóg gerði það að verkum að ég var alveg nóg. Skref fyrir skref tók ég það í sundur og setti Nóg í allar mögulegar aðstæður, í staðin fyrir fyrverandi vin minn kvíða. Ég er nógu góð, nógu sæt, nógu gáfuð, nógu skynsöm og svo mætti halda áfram endalaust.

Nóg gerir það að verkum að ég þarf ekki að vera hrædd við höfnun og þá þarf fyrverandi vinur minn kvíði ekki að vera nálægt til að vernda mig, því Nóg fylgir mér í öllum aðstæðum og þá er ég alltaf alveg nóg í öllu sem ég kann og kann ekki.

Jóhanna Ingólfsdóttir

UMMÆLI