La Traviata í Hofi um helgina

La Traviata í Hofi um helgina

Óperan La Traviata eftir Verdi verður sýnd í Hofi um næstu helgi en óperan var sýnd í fullri Eldborg um síðustu helgi. 

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sér um hljómsveitarleikinn en hljómsveitarstjóri er engin önnur en Anna-Maria Helsing. Kór íslensku óperunnar og dansarar koma einnig fram í sýningunni. Kórstjóri er Magnús Ragnarsson. 

Um sögulegt samstarf er að ræða því þetta er í fyrsta sinn sem Íslenska óperan og Menningarfélag Akureyrar stofna til formlegs samstarfs varðandi óperuuppfærslur.

Guðni Tómasson verður með kynningu fyrir sýninguna þar sem hann kynnir verkið og segir frá höfundinum og söguþræðinum. Veitingasala á BARR Kaffihúsi í Hofi verður opin. Kynningin hefst klukkustund fyrir viðburðinn.

La Traviata fjallar um lífsgleðina, frelsið og forboðna ást og er í þremur þáttum. Óperan var frumflutt í Feneyjum 6. mars árið 1853 og textinn sem er eftir Francesco Maria Piave er byggður á leikgerð skáldsögunnar Kamelíufrúin eftir Alexandre Dumas.

Þar sem fljótlega seldist upp á sýninguna á  laugardagskvöldið var ákveðið að bæta við aukasýningu á  sunnudeginum sem einnig fer að verða uppseld.

UMMÆLI

Sambíó