Leikfélag MA sýnir í Hofi næsta vetur

Menntaskólinn á Akureyri

Leikfélag Menntaskólans á Akureyri (LMA) sýnir næsta leikverk á fjölum Hamraborgar í Hofi. Menningarfélag Akureyrar og Leikfélag Menntaskólans á Akureyri skrifuðu á dögunum undir samning þess efnis. Það gafst tilvalið tækifæri núna á næsta starfsári Menningarfélagsins að bjóða LMA að vera með æfingaaðstöðu og sýningar í Hofi þar sem uppfærslur Leikfélags Akureyrar og gestasýningar þess verða allar í Samkomuhúsinu í ár.

Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri Menningarfélagsins fagnar þessum samningi og segir: „Við hér hjá Menningarfélaginu höfum átt gott samstarf við LMA-inga þar sem þau settu jú upp sýningu sína Anný í Samkomuhúsinu nú í vor við góðan orðstír og áður var samstarf LMA mikið við LA. Í Hofi munu þau læra á nýtt hús, spreyta sig á stærra rými og leika fyrir fleiri áhorfendur í einu – það verður skemmtileg áskorun fyrir þau sem kallar á hugvitssemi, frjótt ímyndunarafl, lausnamiðaða hugsun og skemmtilegt samstarf og samvinnu við starfsfólk Menningarfélagsins. Við hlökkum mikið til að fá þessi hæfileikaríku ungmenni í hús sem mörg hver eru að stíga sín fyrstu skref með leiklistargyðjunni utan sviðs sem innan“.

Soffía Stephensen er formaður LMA og segir samninginn vera mikið fagnaðarefni. ,,Þetta er skemmtileg breyting fyrir félagið en síðustu tvö ár hefur LMA sett sýningar sínar upp í Samkomuhúsinu og gengið vel. Það verður gaman að takast á við nýjar áskoranir og það eru spennandi tímar framundan hjá LMA. Við erum afar þakklát fyrir það tækifæri og traust sem við höfum fengið,“ segir Soffía.

Upplýst verður á haustdögum hvaða verk verður sett upp. Frumsýnt verður 9. mars í Hamraborg í Menningarhúsinu Hofi.

Soffía Stephensen og Kristín Sóley Björnsdóttir undirrita samninginn

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó