Leikfélag VMA sýnir Bugsý Malón í HofiMynd tekin á æfingu Bugsý Malón.

Leikfélag VMA sýnir Bugsý Malón í Hofi

Leikfélag Verkmenntaskólans á Akureyri frumsýnir söngleikinn Bugsý Malón næsta föstudag, 8. febrúar, í Menningarhúsinu Hofi. Verkið hefur verið í æfingu síðan í október sl. en sýningin er gríðarlega stór og víðamikil. Þegar mest er eru hátt í þrjátíu manns á sviðinu í einu. Gunnar Björn Guðmundsson er leikstjóri verksins en hann hefur starfað við leikstjórn í meira en tuttugu ár. Bugsý Malón er þrítugasta og fyrsta leiksýningin sem hann leikstýrir.

Í frétt á vef Verkmenntaskólans segir Gunnar Björn í viðtali að mikið sé búið að leggja í sýninguna og núna á síðustu metrunum er æft alla daga frá fjögur á daginn til miðnættis.
„Þegar nokkrir dagar eru í frumsýningu er ég mjög sáttur við stöðu mála. Þetta er algjörlega á áætlun, hópurinn er agaður og einbeittur á verkefnið. Í sýningunni koma fram fjölmargir afar hæfileikaríkir krakkar. Sumir þeirra hafa verið með í fyrri uppfærslum Leikfélags VMA en meirihluti þeirra sem eru á sviðinu eru í sinni fyrstu uppfærslu hjá félaginu. Ég lofa myndrænni, fjörugri og skemmtilegri sýningu sem hefur þann boðskap að glæpir borga sig ekki,“ segir Gunnar Björn.  

Fjórar sýningar eru áætlaðar á Bugsý Malón. Hér má nálgast frekari upplýsingar um sýninguna og miðasölu.

Sambíó

UMMÆLI