Leikskólinn Árholt tekinn til starfa

Leikskólinn Árholt tekinn til starfa

Leikskólinn Árholt tók til starfa á Akureyri í gærmorgun eftir sextán ára hlé. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar en þar segir að miklar breytingar hafi verið gerðar á húsnæði skólans og aðstaðan sé nú hin glæsilegasta.

Endurbæturnar sem gerðar voru á húsinu gera það að verkum að það henti börnum að stíga sín fyrstu skref í leikskóla þar. Þá hefur verið útbúin starfsmannaaðstaða, samtalsherbergi, eldhús og nú er unnið í því að klára útisvæðið við skólann.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, formaður fræðsluráðs Akureyrarbæjar, segir í samtali við vef bæjarins að aðstaðan sé algjörlega frábær.

„Þetta hefur verið unnið mjög mikið með starfsfólkinu hérna, þau hafa fengið að stýra ferðinni, enda fagaðilar og vita hvað þarf til,“ segir Ingibjörg á Akureyri.is.

Níu börn mættu í gær ásamt foreldrum sínum en gert er ráð fyrir því að um 12 til 14 börn verði í skólanum í vetur, allt niður í 17 mánaða gömul.

Í kjölfarið er svo stefnt að því að starfræktar verði tvær deildir fyrir 24 börn. Árholt verður rekið sem deild við leikskólann Tröllaborgir.

Mynd með frétt: akureyri.is

UMMÆLI

Sambíó