Verkföll standa nú yfir í 21 grunn- og leikskólum um land allt. Af þessum skólum eru fjórtán leikskólar í ótímabundnu verkfalli, þar með talinn leikskólinn Hulduheimar á Akureyri. Hulduheimar hafa því verið lokaðir frá því að verkfall hófst um mánaðarmótin, en munu að hluta til opna á nýjan leik á morgun, þó svo að verkfall sé enn í gildi. Þetta kemur fram í tölvupósti sem barst foreldrum leikskólanema á Hulduheimum í dag og Kaffið hefur undir höndunum.
Aðeins ein deild opin
Í tölvupóstinum sem um ræðir segir að aðeins ein deild, Trölladeild, verði opin í vikunni og ekki sé heimilt að færa börn né starfsmenn milli deilda. Fram kemur að Trölladeild sé sú deild þar sem nóg er af ófaglærðu starfsfólki í vinnu til þess að unnt sé að opna deildina. Þar verður því aðeins ófaglært starfsfólk í vinnu, auk skólastjóra sem gengur í starf deildarstjóra og stýrir deildinni.
Óljóst hvort skólastjóri megi hlaupa í skarðið
Í umræddum tölvupósti segir að túlkanir Sambands sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands á verkfallsreglum séu ekki þær sömu. Samband sveitarfélaga túlki reglurnar þannig að skólastjóri megi ganga í störf deildarstjóra, en Kennarasambandið sé ósammála. Meðan ekki hafi verið skorið úr um hvor aðili hafi rétt fyrir sér þurfi skólarnir að fara eftir fyrirmælum vinnuveitenda og mun skólastjóri Hulduheima því ganga í störf eins deildarstjóra, en allir deildarstjórar Hulduheima eru í verkfalli. Ljóst er þó að skólastjóra er ekki heimilt að ganga í störf fleiri en eins deildarstjóra og því er aðeins hægt að opna eina deild.
UMMÆLI