Leynist Adam í skápnum þínum?

Leynist Adam í skápnum þínum?

Um miðja 20. öldina stöðvaði Dómsmálaráðuneyti Íslands sölu á tímariti sem gefið var út á Akureyri. Tímaritið, sem sumir litu á sem saklaust myndablað með gamansömu ívafi, hét Adam. Aðrir töldu Adam fara út fyrir öll velsæmismörk með sínum klámfengna og ósiðlega boðskap. Efni tímaritsins svipaði til danska ritsins Hudibras sem einhverjir kannast ef til vill við. Vafasamar sögur af ólifnaði sjómanna í erlendum hafnarborgum og sögur af arabískum gleðihúsum – svo eitthvað sé nefnt – fóru fyrir brjóstið á þungaviktarmönnum í andlegum málefnum. Ábyrgðarmaður og útgefandi tímaritsins var Páll Guðmundsson.

Fór svo að Lögreglunni var fyrirskipað að fara í bókaverslanir til að gera upplag tímaritsins upptækt sem og hún gerði þann 17. mars á því herrans ári 1952. Vegna íhlutunar ráðuneytisins og aðgerða Lögreglunnar kom aðeins út þetta eina tölublað. Eðli málsins samkvæmt náði það aldrei útbreiðslu. Talið er að eintökin sem Lögreglan tók í sína vörslu hafi endað í ruslinu. Hér er því um afar fágætan grip að ræða og verðmætan eftir því.

Á vefnum Bokin.is – netbókabúð er eintak af þessu merkilega tímariti til sölu. Ástand eintaksins er sagt vera gott og tekið er fram að þarna sé um „mikið fágæti“ að ræða. Fyrir áhugasama skal þess getið að eintakið af Adam er falt fyrir 19.500 krónur.

Heimildir:

Grenndargralið

„Adam“ gerður upptækur! (1952, 19. mars). Dagur, bls. 12.

Bókin ehf. (e.d.) Adam. Mynda- og gamanblað # 20880. Bokin.is. http://www.bokin.is/product_info.php?cPath=732&products_id=20812

Mynd af Lögreglumanni:

Ljósmyndari óþekktur. (1956). Lögregla, umferð. Sarpur – menningarsögulegt gagnasafn. [Myndin er frá Þjóðminjasafni Íslands] Fengin af https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=722423

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó