Listasafnið gjörningahátíð

Listasafnið á Akureyri – Þrjár nýjar sýningar opna á laugardaginn

Listasafnið á Akureyri – Þrjár nýjar sýningar opna á laugardaginn

Laugardaginn 28. september næstkomandi verða þrjár sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri. Listakonurnar Claudia Hausfeld og Detel Aurandmunu opna sýninguna Samskipti, Georg Óskar opnar sýninguna Það er ekkert grín að vera ég og Einar Falur Ingólfsson opnar svo sýningu að nafninu Útlit loptsins – Veðurdagbók.

Sýningarnar opna allar klukkan 15:00 á laugardaginn og klukkan 15:45 hefst listamannaspjall við Georg Óskar, Detel Aurand og Claudia Hausfeld. Klukkan 15:00 á sunnudaginn fer svo fram kynning og upplestur á bók Detel Aurand, We Are Here.

Sýningarnar munu allar standa til 12. janúar 2025 og verður hægt að skoða þær á opnunartíma Listasafnsins, alla daga kl. 12-17. Í tilkynningu frá listasafninu segir eftirfarandi um sýningarnar og listafólkið:

Detel Aurand og Claudia Hausfeld – Samskipti

Samskipti er sýningarverkefni sem byggir á viðvarandi póstsendingum á listaverkum á milli listakvennanna Claudia Hausfeld og Detel Aurand, stýrt af Katharina Wendler. Þær þrjár hafa allar sterk tengsl við Ísland, hafa búið hér og unnið til margra ára og rannsakað hina svæðisbundnu listasenu ofan í kjölinn. Síðan 2017 hafa listakonurnar tvær skipst á teikningum, málverkum, klippimyndum, ljósmyndum og hlutum í póstsendingum, þar sem þær fjalla um málefni tengd eyjalífi hér og þar, í fortíð og nútíð.


Í gegnum árin hafa þessi samskipti liðast í gegnum fjölmarga liti, efni og hugmyndir. Þessi sýning safnar saman ummerkjum þessa samtals og útvíkkar til gesta sýningarinnar. Með því að fella valda, fundna hluti úr þessu samtali inn í stóra innsetningu, tekur sýningin á spurningum um listræna samvinnu og vinnu einstaklinga, nánd og fjarlægð, miðju og ytri mörk, sameiginlega eiginleika og aðgreiningu.

Sýningarstjóri: Katharina Wendler.

Georg Óskar – Það er ekkert grín að vera ég

Yrkisefni Georgs Óskars eru fjölbreytileg og varpa ljósi á auðugt hugmyndaflug málarans sem oft setur sig í hlutverk sögumanns. Hvert verk er sjálfstæð veröld þar sem gjarnan er að finna skírskotanir til hversdagslegra atburða í samtímanum sem settir eru í allt annað og óskylt samhengi þannig að úr verður skálduð, kómísk og jafnvel kaldhæðnisleg tilvera. Hugmyndir flæða um myndflötinn, kallast á og vaxa í huga áhorfandans. Vísanir í hetjur teiknimyndanna eða kynjaverur verða honum að yrkisefni. Verkin minna okkur á hve hollt það getur verið að leita á náðir fantasíunnar og hliðarheimanna til að sjá og skilja okkar raunsönnu veröld.

Georg Óskar skorast ekki undan því að sýna okkur heiminn í öðru ljósi og vekur okkur til umhugsunar. Inntak verkanna spannar vítt svið mannlegrar tilveru og vísar gjarnan til einmanaleika, fegurðar, náttúru, lífsins sjálfs og dauðans. 

Einar Falur Ingólfsson – Útlit loptsins – Veðurdagbók


Veðurdagbókin Útlit loptsins er hryggjarsúlan í röð myndlistarverka um veður og tíma sem Einar Falur Ingólfsson vann að 2022 til 2023 sem fulltrúi Íslands í fjölþjóðlegu verkefni um veðrið, Veðurneti heimsins – World Weather Network, en þátt í því tóku myndlistarstofnanir í 28 löndum. Stóran hluta þess tíma var Einar Falur staðarlistamaður í Vatnasafni í Stykkishólmi.

Veðurdagbókin samanstendur af 366 verkum sem byggja á þremur þáttum, ljósmynd og veðurskráningu tveggja tíma. Í eitt ár tók Einar Falur ljósmynd af himninum á hádegi og er hún birt ásamt opinberri veðurskráningu á sama augnabliki. Kallast hún á við veðurskráningu Árna Thorlaciusar (1802-1881) í Stykkishólmi 170 árum fyrr. Veðurdagbókin Útlit loptsins er sýnd í fyrsta skipti í heild auk annarra ljósmynda- og vídeóverka um veður og tíma.

Einar Falur er bókmenntafræðingur og með MFA-gráðu frá School of Visual Arts í New York. Verk hans hafa verið sýnd víða um lönd og eru í eigu helstu listasafna á Íslandi.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó