Fimmtudagskvöldið 5. júní kl. 20-22 verður opnuð samsýning norðlenskra listamanna, Mitt rými, og yfirlitssýning á verkum Margrétar Jónsdóttur, Kimarek – Keramik, í Listasafninu á Akureyri. Boðið verður upp á listamannaspjall með Margréti kl. 20.45 og leiðsögn um Mitt rými með Katrínu Björgu Gunnarsdóttur, sýningarstjóra, kl. 21.15.
Listasafnið auglýsti fyrr á árinu eftir umsóknum um þátttöku í samsýningu norðlenskra listamanna og sérstök dómnefnd valdi inn verk. Alls voru valin verk eftir sautján listamenn. Sýningunni er ætlað að gefa innsýn í þá fjölbreyttu flóru myndlistar sem tengist Norðurlandi og vekja umræður um stöðu norðlenskra listamanna og myndlistar. Sjá má lista yfir þáttakendur og dómnefnd hér.
40 ára starfsferli fagnað
Í tilefni af 40 ára starfsferli Margrétar Jónsdóttur óskaði Listasafnið eftir samstarfi við almenning um lán á einstaka munum fyrir yfirlitssýningu hennar, Kimarek – Keramik. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og safnaðist fjöldi muna. Á sýningunni verða munirnir settir saman í eina innsetningu og er ætlað að spanna tímabilið frá upphafi ferils Margrétar til dagsins í dag.
Margrét Jónsdóttir er fædd á Akureyri 1961. Hún fór ung til Danmerkur og nam leirlist í listiðnaðarskólanum í Kolding, en snéri heim að námi loknu 1985 og stofnaði sitt eigið leirverkstæði í bílskúrnum hjá ömmu sinni. Í rúm 20 ár hefur hún haft vinnustofu í Gránufélagsgötu 48 á Akureyri, þar sem hún vinnur að list sinni og selur eigin verk.
Viðfangsefni Margrétar hafa verið margvísleg í gegnum tíðina og hún unnið jöfnum höndum að gerð nytjalistar, stærri listmuna og listskreytinga. Hún hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis.
UMMÆLI