fbpx

Litaði bíl leigjanda síns og fékk slökkviliðið til að taka þakið af

Litaði bíl leigjanda síns og fékk slökkviliðið til að taka þakið af

Guðmundur Ómarsson leigir út íbúð á Krókeyrarnöf. Hann var orðinn þreyttur á eiturgræna litinum á bíl leigjandans og ákvað ásamt vini sínum, Níelsi Þóroddssyni, að gera eitthvað í málunum. Við heyrðum í Guðmundi og fengum hann til að segja okkur nánar frá.
 „Við vorum bara tveir félagar heima eftir smá djamm og mig hafði alltaf langað til að mála bílinn hjá leigjandanum svartan þar sem mér fannst eiturgræni, upprunalegi liturinn svo hræðilega ljótur og passaði engan vegin við nýmálað húsið,” segir Guðmundur.

Guðmundur og Níels

 „Ég stóð því allt í einu upp úr sófanum og sagði við Níels Þóroddsson vin minn að hann þyrfti að koma aðeins út með mér og hjálpa mér að mála bílinn hjá leigjandanum þar sem hann væri svo ljótur. Níels er náttúrulega alveg jafn ruglaður og ég og stóð bara upp eins og ekkert væri sjálfsagðra og greip bara málningarrúllu og við byrjuðum að mála bílinn. Ég var nýbúinn að mála húsið mitt svart og átti slatta eftir af málningu sem við notuðum á bílinn. Það var mjög fallegt veður þarna um nóttina og kjör aðstæður til að mála bílinn. Svo horfðum við bara á hann og sprungum úr hlátri og fórum að sofa.”
Næsta dag fengu þeir félagar heimsókn frá nokkuð pirruðum einstakling.  „Níels átti frekar erfitt með svefn þarna um nóttina yfir kvíða eftir bankinu frá leigjandanum, en ég var nú nokkuð vel sofinn þegar hann bankaði. Við fórum saman til dyra og leigjandinn spurði hvað hefði eiginlega gerst þarna um nóttina, frekar pirraður. Ég gat ekkert sagt og sprakk bara úr hlátri og kom ekki upp orði í um það bil 3 mínútur. Og svo sögðum við honum bara sannleikann að liturinn hefði ekki verið neitt sérstakur og leigjandinn var eiginlega orðinn sammála okkur þegar við vorum búnir að sannfæra hann. Ég bauðst því til að kaupa bílinn sem ég gerði og borgaði bara sanngjarnt verð og allir glaðir.”
Guðmundur og Níels voru þó ekki alveg nógu sáttir með nýja bílinn sinn og ákvaðu að þeir vildu breyta honum aðeins meira. „Okkur Níels hafði alltaf langað að eiga blæjubíl svo við ákváðum að láta drauminn rætast, byrjuðum að reyna að saga af honum toppinn þarna á bílastæðinu og gekk það ekki jafn vel og með málninguna og gáfumst við fljótt upp, fórum því daginn eftir og sömdum við Slökkvilið Akureyrar um að klippa af honum toppinn og það tók þá bara um korter, algjörir meistarar.”
Hér að neðan má sjá myndir af bílnum eftir hrekkinn.

UMMÆLI