Gæludýr.is

Logi leiðir listann – Fullskipaður framboðslisti Samfylkingar í Norðausturkjördæmi

Logi leiðir listann – Fullskipaður framboðslisti Samfylkingar í Norðausturkjördæmi

Framboðslisti Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar var samþykktur á fundi kjördæmisráðs flokksins í Samfylkingarsalnum á Akureyri í morgun. Ljóst er því að Logi Einarsson, alþingismaður og formaður þingflokks flokksins, verður áfram efstur á framboðslista flokksins fyrir komandi Alþingiskosningar. Þetta segir í tilkynningu sem Samfylkingin gaf frá sér í dag.

Eydís Ásbjörnsdóttir, skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands, færir sig upp í annað sæti, en hún var í þriðja sæti listans fyrir kosningarnar 2021. Í þriðja sæti er í þetta skiptið Sæunn Gísladóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri. Fjórða sætið skipar svo Sindri Kristjánsson lögfræðingur.

Framboðslisti Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi:
1. Logi Einarsson, alþingismaður
2. Eydís Ásbjörnsdóttir, skólameistari VA
3. Sæunn Gísladóttir, sérfræðingur við Rannsóknarmiðstöð HA
4. Sindri Kristjánsson, lögfræðingur
5. Stefán Þór Eysteinsson, fagstjóri hjá Matís í Neskaupstað
6. Kristín Helga Schiöth, framkvæmdastjóri
7. Ásdís Helga Jóhannsdóttir, sérfræðingur hjá Afli
8. Jóhannes Óli Sveinsson, stuðningsfulltrúi
9. Eva María Ingvadóttir, aðjúnkt við HA
10. Benóný Valur Jakobsson, verslunarmaður
11. Valborg Ösp Á. Warén, verkefnastjóri
12. Nói Björnsson, formaður íþróttafélagsins Þórs á Akureyri
13. Elsa María Guðmundsdóttir, grunnskólakennari
14. Birkir Snær Guðjónsson, hafnarvörður
15. Kristín Sóley Björnsdóttir, viðburðastjóri
16. Reynir Ingi Reinhardsson, lögfræðingur
17. Áslaug Inga Barðadóttir, framkvæmdastjóri
18. Árni Gunnarsson, bóndi í Sveinungsvík
19. Svanfríður Jónasdóttir, fv. bæjarstjóri og alþingismaður
20. Ólafur Ármannsson, framkvæmdastjóri

Í tilkynningu er eftirfarandi barátturæða höfð eftir oddvitanum, Loga Einarssyni, af fundi kjördæmisráðs í morgun:

„Við í Samfylkingu höldum full sjálfstrausts í kosningabaráttuna. Við erum tilbúin til þjónustu, fáum við til þess traust í kosningunum, eftir markvissa vinnu síðustu tvö árin undir styrkri forystu Kristrúnar Frostadóttur formanns.

Liður í því eru vel á annað hundrað opnir fundir um land allt þar sem við höfum rætt við fólkið í landinu um þau mál sem mestu skipta í daglegu lífi. Hvernig við getum passað upp á efnahagsmálin, heilbrigðis og skólamálin, atvinnu og samgöngur, húsnæði og lífskjör fólks frá degi til dags. Þarna hefur fráfarandi ríkisstjórn algjörlega brugðist, því miður, en við í Samfylkingu bjóðum trausta forystu um breytingar.

Þetta er fjölbreyttur hópur frambjóðenda og við hlökkum til að leggja í hann og að hitta fólk sem víðast í þessu stóra og fallega kjördæmi. Það er sannfæring mín að mjög margt fólk vilji sjá breytingar í þágu almennings eftir kosningar og sé tilbúið í nýtt upphaf undir forystu Kristrúnar Frostadóttur.”

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó