Lögreglan á Akureyri boðar blaðamenn í yfirheyrslu vegna umfjöllunar um skæruliðadeild Samherja

Lögreglan á Akureyri boðar blaðamenn í yfirheyrslu vegna umfjöllunar um skæruliðadeild Samherja

Lögreglan á Akureyri hefur boðað að minnsta kosti fjóra blaðamenn í yfirheyrslu fyrir meint brot á lögum um friðhelgi einkalífsins. Rannsóknarlögreglumaður frá lögreglunni er á leið til Reykjavíkur til þess að yfirheyra blaðamennina vegna umfjöllunar þeirra um aðferðir svokallaðrar skæruliðadeildar Samherja. Frá þessu er greint á vef Stundarinnar.

Samkvæmt heimildum Stundarinnar eru minnst þrír blaðamenn boðaðir í yfirheyrslu. Einn þeirra, er Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður Stundarinnar. Hinir eru Þórður Snær Júlíusson, ristjóri Kjarnans, og Arnar Þór Ingólfsson á Kjarnanum. Á vef RÚV kemur fram að Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks hafi einnig verið boðuð í yfirheyrslu.

Í umfjöllun Kjarnans um málið segir: „Það var, og er, skýr nið­ur­staða ábyrgð­ar­manna Kjarn­ans að hluti þeirra gagna sem umfjöll­unin byggði á ætti sterkt erindi og því eru almanna­hags­munir af því að fjalla um þau með ábyrgum hætti.“

Stundin og Kjarninn fjölluðu í maí síðastliðnum um tilraunir starfsmanna og verktaka Samherja til þess að koma óorði á blaða- og fréttamenn sem fjölluðu um mútumál félagsins í Namibíu. Þar kom meðal annars fram að þrír einstaklingar gegndu lykilhlutverki í áróðursteymi Samherja: Þorbjörn Þórðarson, Arna Bryndís Baldvins McClure lögmaður og Páll Steingrímsson skipstjóri.

Kjarn­inn og Stundin birtu röð frétta­­skýr­inga sem byggðu á gögnum sem sýndu hvernig stjórn­­­end­­­ur, starfs­­­fólk og ráð­gjafar Sam­herja höfðu lagt á ráðin um að ráð­­­ast gegn nafn­­­greindum blaða­­­mönn­um, lista­­­mönn­um, stjórn­­­­­mála­­­mönn­um, félaga­­­sam­­­tökum og ýmsum öðrum til að hafa af þeim æruna, trú­verð­ug­­­leik­ann eða lífs­við­­­ur­vær­ið. 

Formaður blaðamannafélags Íslands hefur fordæmt afskipti lögreglunnar af rannsóknarblaðamönnum og segir þau óskiljanleg og óverjandi. Hún segir það ljóst að í málinu hafi almannahagsmunir vegið þyngra en friðhelgi einkalífs. Þá hafi starfsfólk Samherja beðist afsökunar á því sem lýst var í umfjölluninni og réttmæti fréttanna ekki verið véfengt.

Nánar má lesa um málið á vef Stundarinnar og vef Kjarnans.

UMMÆLI

Sambíó