Lögreglan fylgist vel með ökumönnum í vikunni

Lögreglan fylgist vel með ökumönnum í vikunni

Lögreglumenn á Norðurlandi eystra munu fylgjast sérstaklega með ástandi á ljósabúnaði ökutækja, notkun öryggisbelta og notkun farsíma við akstur í vikunni. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook síðu lögreglunnar.

Þar segir að því miður sé alltaf eitthvað um að ljósabúnaður sé ekki eins og á að vera. Allir ökumenn eru hvattir til þess að kynna sér með hvaða hætti kveikja skuli á ljósum á þeirri bifreið sem ekið sé á hverju sinni.

„Allt of algengt er að einungis sé kveikt á dagljósum ökutækja sem mörg hver hafa þá þann galla að engin ljós eru tendruð aftan á sem getur skapað stórhættu fyrir aðra vegfarendur,“ segir í færslu lögreglunnar.

Varðandi notkun öryggisbelta segir að engin þurfi að velkjast í vana um nauðsyn þess að spenna ávalt beltin.

„Margsannað er að þau bjarga mannslífum og minnka áverka lendi menn í óhöppum eða slysum. Þrátt fyrir það er of stór hluti ökumanna sem og farþega sem nota ekki þennan sjálfsagða öryggisbúnað.“

Þá er minnt á að við stjórn ökutækis sé krafist fullrar einbeitingar og það að vera með símann í höndunum við slíkar aðstæður skapi öllum stórhættu. Fólk er hvatt til að venja sig af því í eitt skipti fyrir öll.

Sambíó

UMMÆLI