beint flug til Færeyja

Lögreglan hafði afskipti af mönnum sem voru að betla

Lögreglan hafði afskipti af mönnum sem voru að betla

Lögreglan á Norðurlandi eystra hafði í gærkvöldi afskipti af tveimur karlmönnum sem voru við verslanir á Akureyri að betla peninga af fólki. Mennirnir sögðust vera að safna fé til styrktar heyrnardaufum.

„Þóttist annar mannanna tala táknmál en kunnáttuleysi hans á því sviði var afhjúpað þegar hann vatt sér að konu sem kann táknmál. Við nánari skoðun á þessum mönnum kom í ljós að þeir voru ekki að safna fé fyrir nein samtök og höfðu því vissulega engin leyfi til slíks. Þeir voru því að svíkja fé af fólki en virðast þó ekki hafa haft mikið upp úr krafsinu að þessu sinni. Þeir eru í löglegri dvöl hér á landi en við erum nú að skoða hvort þeir kunni að hafa tengsl við fleiri við sömu iðju og þá hvort þetta er stundað með skipulögðum hætti,“ segir í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Lögreglan vill fá að vita af því ef fólk verður vart við vafasamar peningasafnanir af þessu tagi. Þá er hægt að senda tilkynningu á netfangið nordurland.eystra@logreglan.is og tilgreina þar stað og stund, lýsingu á aðilum o.s.frv. Ef þið eruð viss um að verið sé að betla fé undir fölsku yfirskini er hægt að hringja í 112 og óska eftir lögreglu á staðinn.

„Við skulum samt hafa í huga að félagasamtök geta fengið leyfi til opinberra safnana, sölu á happdrættismiðum og þessháttar en eðlilegt er að þeir sem það gera séu merktir félaginu og geti framvísað leyfisbréfi fyrir söfnuninni. Takk fyrir og megi dagurinn vera ykkur ljúfur í alla staði,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

UMMÆLI

Sambíó