Lokahóf knattspyrnudeildar KA – Hans bestur og Kári efnilegasturLjósmyndir: Knattspyrnufélag Akureyrar.

Lokahóf knattspyrnudeildar KA – Hans bestur og Kári efnilegastur

Lokahóf knattspyrnudeildar KA fór fram í veislusal Múlabergs um helgina. Sigurgleðin var allsráðandi enda sögulegu sumri lokið þar sem KA hampaði Bikarmeistaratitlinum í fyrsta skiptið í sögunni. Fyrr um daginn vann KA glæsilegan 1-4 útisigur á Fram sem tryggði sigur í neðri hluta Bestu deildarinnar. Þetta segir í frétt á heimasíðu KA.

Fjölmargir KA-menn fögnuðu uppskeru sumarsins en auk glæsilegs þriggja rétta veislumats hjá Múlaberg voru fjölmörg skemmtiatriði á dagskrá þar sem Beggi í Sóldögg steig á svið auk Prettiboitjokko en Steve Dagskrá sáu um veislustjórnina.

Hans Viktor Guðmundsson var valinn besti leikmaður KA á tímabilinu en Hans sem gekk í raðir KA fyrir sumarið frá Fjölni átti heldur betur frábært sumar. Strax frá fyrsta leik sýndi hann og sannaði að hann er einn besti varnarmaður deildarinnar, þá frammistöðu sýndi Hans í allt sumar og má með sanni segja að stöðugleikinn sem hann sýndi í hjarta varnarinnar hafi verið lykilhluti í þessum frábæra árangri sem liðið náði í sumar.

Hallgrímur Mar Steingrímsson var markahæsti leikmaður KA í sumar en Grímsi skoraði 11 mörk í leikjum sumarsins. Tvö mörk gerði hann í Mjólkurbikarnum og hin níu komu í Bestudeildinni, þar af tvö í lokaleik sumarsins er KA tryggði sér efsta sætið í neðri hlutanum.

Kári Gautason var kjörinn efnilegasti leikmaður KA á tímabilinu en Kári sem er uppalinn hjá KA spilaði lykilhlutverk í sumar sem bakvörður eftir að hafa slegið í gegn á láni hjá Dalvík/Reyni á síðustu leiktíð. Kári sem verður 21 árs síðar á árinu spilaði 28 leiki í deild og bikar á tímabilinu og sýndi það heldur betur að hann er meira en klár í slaginn í deild þeirra bestu og verður gaman að fylgjast áfram með framgöngu hans.

Bjarni Aðalsteinsson, Rodrigo Gomes Mateo og Sveinn Margeir Hauksson voru verðlaunaðir fyrir að leika sinn 100. leik fyrir KA í sumar. Þá voru þeir Ásgeir Sigurgeirsson og Elfar Árni Aðalsteinsson heiðraðir fyrir að spila sinn 200. leik fyrir KA. Þess má geta að hér eru einungis leikir taldir í deild, Mjólkurbikar og Evrópu. Þá var Sveinn Margeir ekki á svæðinu en hann er í Bandaríkjunum um þessar mundir þar sem hann stundar nám auk þess að leika með háskólaliði UCLA.

Hallgrímur Mar Steingrímsson heldur áfram að skrifa sögu KA upp á nýtt en hann skoraði í sumar sitt 100. mark fyrir félagið og er hann markahæsti leikmaður í sögu félagsins. Hann er sá fyrsti í sögu KA sem skorar 100 mörk í keppnisleikjum en hann er nú kominn með 109 mörk í deild, Mjólkurbikar og Evrópu.

Auk þess að vera markahæsti leikmaður KA er Grímsi leikjahæsti leikmaður í sögu KA en hann hefur nú leikið 346 leiki í deild, Mjólkurbikar og Evrópu fyrir KA. Einnig er hann leikjahæsti leikmaður KA í efstudeild með 182 leiki sem og markahæsti leikmaður KA í efstudeild með 62 mörk.

Ragnar Már Þorgrímsson, Elmar Dan Sigþórsson, Þórður Sigmundur Sigmundsson og Tryggvi Björnsson var veittur Dorrinn af Vigni Má Þormóðssyni. Dorrinn er veittur dyggum stuðningsmönnum og er til minningar um Steindór heitinn Gunnarsson, sem lést árið 2011 og var einn af heitustu KA-mönnum á Akureyri, er forláta bifreið af gerðinni Benz – í miniútgáfu. Það þótti við hæfi, enda átti Steindór lengi slíkan bíl.

Þeir félagar hafa unnið þrekvirki í vinnu á KA-svæðinu undanfarin ár sem hefur gert félaginu kleift að spila meistaraflokksleiki sína undanfarin ár á gervigrasvellinum á KA-svæðinu. Ekki nóg með að koma upp vökvakerfi á vellinum þá er í dag flott stúka fyrir áhorfendur við völlinn sem er nú rammaður glæsilega inn með veggjum þar sem merki styrktaraðila KA njóta sín. Er gervigrasið var uppfært á vellinum voru þeir félagar í lykilhlutverki er gamla grasið var fært til og útbúinn auka gervigras aðstaða fyrir yngstu flokka KA.

UMMÆLI

Sambíó